fim 20. apríl 2017 13:30
Elvar Geir Magnússon
Klopp útilokar að fá Hart
Hart á æfingu með enska landsliðinu.
Hart á æfingu með enska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Klopp og Simon Mignolet.
Klopp og Simon Mignolet.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, útilokar að reyna að fá enska landsliðsmarkvörðinn Joe Hart.

Enskir fjölmiðlar sögðu í gær að Liverpool væri að vinna í því að fá markvörðinn sem er hjá Torino á lánssamningi frá Manchester City.

Hart er þrítugur og reiknað er með því að hann muni yfirgefa herbúðir City í sumar. Klopp er þó ánægður með núverandi markverði sína, Simon Mignolet og Loris Karius.

„Hann er frábær markvörður í hæsta gæðaflokki, en hann verður ekki okkar. Hvorki núna eða í framtíðinni," sagði Klopp.

Hart er ekki í myndinni hjá Pep Guardiola en óvíst er hvað City gerir í sínum markvarðarmálum. Claudio Bravo hefur ekki staðið undir væntingum en Guardiola segir að engar ákvarðanir verði teknar fyrr en eftir tímabilið.

Henderson getur ekki æft
Á fréttamannafundi í dag staðfesti Klopp einnig að Adam Lallana ætti að snúa á fullu til æfinga í seinni hluta næstu viku og að sóknarmaðurinn Danny Ings sé farinn að hlaupa á ný eftir alvarleg hnémeiðsli.

Jordan Henderson er að glíma við hnémeiðsli:

„Á þessum tímapunkti getur hann ekki æft. Við verðum að bíða. Við erum í sífelldum samræðum við misjafna lækna. Hann lítur vel út en getur ekki spilað fótbolta," segir Klopp.

Liverpool fær Crystal Palace í heimsókn á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner