mið 20. júní 2018 17:42
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari CSKA Moskvu um Hörð: Mikilvægt að fá alvöru víking í liðið
Viktor Goncharenko
Viktor Goncharenko
Mynd: Getty Images
Viktor Goncharenko, þjálfari CSKA Moskvu í Rússlandi, ræddi við heimasíðu félagsins um kaupin á Herði Björgvini Magnússyni frá Bristol City en hann segir að félagið hafi fylgst með honum í dágóðan tíma.

CSKA staðfesti í dag kaupin á Herði frá Bristol City en hann kemur til félagsins fyrir 2,5 milljónir evra. Hann gerði fjögurra ára samning og gengur formlega til liðs við CSKA Moskvu þann 1. júlí næstkomandi.

Þjálfari liðsins er Viktor Goncharenko en hann hefur getið sér gott orðspor á undanförnum árum, bæði fyrir árangur sinn með BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi þar sem hann kom liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en auk þess þjálfaði hann Ural og Krasnodar í Rússlandi.

Hann er ánægður með að fá Hörð til félagsins og segir að það hafi sárlega þurft annan víking eftir að sænski miðjumaðurinn Pontu Wernbloom yfir félagið eftir síðasta tímabil.

„Við vorum búnir að fylgjast með Herði lengi og hann er öflugur varnarmaður. Við misstum Pontus Wernbloom frá okkur og vildum fá annan víking sem hentar taktíkinni okkar, auk þess sem hann er líkamlega sterkur," sagði Goncharenko.

„Hann getur spilað mismunandi stöður. Hann getur leikið djúpur á miðju, í miðri vörn og líka í vinstri bakverðinum. Hann er með marga kosti sem nýtast okkur vel," sagði hann í lokin.

CSKA Moskva hafnaði í 2. sæti rússnesku deildarinnar á síðasta tímabili en nágrannar þeirra í Lokomotiv unnu deildina. CSKA mun leika í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu en liðið hefur verið áskrifandi þar. Liðið lenti í 3. sæti í sínum riðli á síðasta tímabili og fór alla leiða í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner