Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 20. nóvember 2014 17:30
Magnús Már Einarsson
Alexander Magnússon: Hugsaði oft um að hætta
Alexander Magnússon.
Alexander Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander í leik með Grindavík.
Alexander í leik með Grindavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Magnússon gekk fyrir helgi til liðs við Keflavík eftir fimm ár í herbúðum Grindavíkur.

,,Ég ákvað að ganga til liðs við Keflavík því þeir sýndu mér mikinn áhuga og ég tel að ég verði betri leikmaður í herbúðum þeirra. Þeir hafa mikla trú á að ég eigi eftir að koma sterkur til baka eftir erfið meiðsli síðustu tvö tímabil en það er ekkert sjálfgefið," sagði Alexander við Fótbolta.net.

Næstu 3-4 vikur mikilvægastar
Hinn 25 ára gamli Alexander var að glíma við erfið liðþófa meiðsli í sumar og í fyrra. Hann fór í speglun í haust og er á batavegi.

,,Það eru rétt rúmar fjórar vikur frá spegluninni og ég finn ekkert sem plagar mig nú í augnablikinu. Það er smá vökvi ennþá inn á liðnum en hann fer minnkandi með hverum degi svo ég er bara nokkuð brattur. Ég hef verið að hitta Fal sjúkraþjálfara og verð sennilega mikið með honum í meðhöndlun."

,,Það er mikill kostur fyrir mig að geta komist í sjúkraþjálfun á hverjum degi eða eins og þörf er á án þess að þurfa að keyra í Reykjavík til að fá meðhöndlun."

,,Ég vil meina að næstu 3-4 vikur verða sennilega þær mikilvægustu á komandi mánuðum þar sem ég þarf að koma mér í eins gott stand og mögulega hægt er áður en ég fer á fótboltaæfingu til að forðast eitthvað bakslag."


Valur og Fjölnir höfðu einnig áhuga
Alexander var eftirsóttur eftir tímabilið en fleiri félög úr Pepsi-deildinni sýndu honum áhuga.

,,Það voru þrjú lið sem sýndu áhuga, Keflavík, Valur og Fjölnir. Ég hitti Kristján Guðmunds og Óla Jó en ræddi bara við Óla Palla í síma. Mér fannst allt mjög spennandi og var alveg tilbúinn að vera opinn fyrir öllu en um leið og ég hitti Kristján fann ég strax að mér leist svakalega vel á hans hugmyndarfræði og stefnan hjá Keflavík heillaði svo að ég ákvað að slá til," sagði Alexander sem yfirgefur Grindavík með söknuði.

,,Mér finnst virkilega leiðinlegt að yfirgefa þessa topp stráka í Grindavík en mér fannst kominn tími á breytingu hjá mér. Ég hugsa að þeir skilja mína hlið mjög vel þar sem maður var orðinn verulega svartsýnn á tímabili vegna meiðsla og hugsaði margt oft um að hætta alveg í boltanum. Ég vona svo sannarlega að þeir verða í baráttu um að fara upp næsta sumar og mun ég fylgjast með mínum fyrrum félögum."
Athugasemdir
banner
banner
banner