mið 21. febrúar 2018 10:30
Magnús Már Einarsson
„Einn nígerískur stuðningsmaður betri en 200 íslenskir"
Nígeríumenn halda að 66 þúsund Íslendingar mæti á leikinn á HM
Icelandair
Stuðningsmenn Nígeríu í góðum gír.
Stuðningsmenn Nígeríu í góðum gír.
Mynd: Getty Images
Íslenskir stuðningsmenn fá alvöru samkeppni gegn Nígeríu.
Íslenskir stuðningsmenn fá alvöru samkeppni gegn Nígeríu.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Dr. Rafiu Ladipo, forseti stuðningsmannaklúbb nígeríska landsliðsins, hefur litla trú á stuðningsmönnum Íslands ef marka má viðtal við hann á vefsíðunni Hotsports.

Sá misskilningur virðist vera í gangi í Nígeríu að 66 þúsund íslenskir stuðningsmenn hafi sótt um miða á leikinn gegn Nígeríu á HM Í Rússlandi þann 22. júní. Það er auðvitað ekki hægt þar sem völlurinn í Volgograd tekur rúmlega 45 þúsund áhorfendur í sæti.

Dr. Rafu Ladipo hefur hins vegar látið í sér heyra og segist ekki hræðast samkeppni við íslenska stuðningsmenn í stúkunni.

„Við getum ekki verið hrædd því það er munur á áhorfendum og stuðningsmönnum. Íslendingar eru bara áhorfendur en ég get skilið að þeir séu svona spenntir að sjá lið sitt á HM," sagði Rafu Ladipo við Hotsports.

„Nígeríski stuðningsmannaklúbburinn er skipaður alvöru fótbolta stuðningsmönnum sem eyða pening í að styðja liðið og eru ástríðufullir fyrir leiknum."

„Við höfum alltaf verið með Ofurörnunum (nígeríska landsliðinu) og höfum mætt á fimm heimsmeistaramót síðan á fyrsta mótinu í Bandaríkjunum árið 94."

„Við erum reyndir og þó að við verðum fáir þegar Nígería mætir Íslandi þann 22. júní þá munum við hafa betur gegn þeim."

„Þetta er okkar landsvæði. Við höfum gert þetta í langan tíma og við þekkjum leikinn. Einn meðlimur í stuðningsmannaklúbbi okkar er betri en 200 íslenskir stuðningsmenn."

„Við ætlum einnig að reyna að fá stuðningsmenn okkar sem búa í Evrópulöndum nálægt Rússlandi til að koma með okkur að hvetja ernina áfram."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner