mið 21. febrúar 2018 19:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki hægt að sanna að Firmino hafi verið með rasisma
Mynd: Getty Images
Roberto Firmino, sóknarmanni Liverpool, verður ekki refsað af knattspyrnusambandinu fyrir atvik sem átti sér stað í leik gegn Everton í FA-bikarnum í byrjun ársins.

Holgate henti Firmino yfir auglýsingaskilti og Firmino brást reiður við. Hann óð í áttina að Holgate og sagði eitthvað sem Holgate varð brjálaður yfir. Liðsfélagar Holgate þurftu að halda aftur af honum.

Holgate sakaði Firmino um kynþáttafordóma, sagði hann að sá brasilíski hefði kallað sig 'negro'.

Á sjónvarpsmyndavélum sást þegar Firmino kallar Holgate ‘filho da puta’ en á íslensku er það beint þýtt sem ‘hórusonur’. Svo fóru myndavélarnar af andlitum þeirra.

Málið var rannsakað frekar og viðurkenndi Firmino að hafa móðgað Holgate á portúgölsku en neitaði jafnframt ásökunum sem Holgate bar upp um kynþáttaníð.

Enska knattspyrnusambandið hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi málið en þar segir að ekki sé hægt að sanna að Firmino hafi verið með kynþáttaníð í garð Holgate.

Knattspyrnusambandið fékk vitnisburð frá 12 leikmönnum og starfsmönnum frá báðum félögum, dómaranum Bobby Madley og fjórða dómaranum.

Enginn af þeim sem gaf vitnisburð heyrði það sem Firmino á að hafa sagt við Holgate.
Athugasemdir
banner
banner
banner