Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 21. apríl 2015 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Óli Þórðar: Lykilatriði að skora fleiri mörk en í fyrra
Víkingum er spáð 7. sæti í deildinni.
Víkingum er spáð 7. sæti í deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Það verður frábært að taka þátt í Evrópukeppninni.
,,Það verður frábært að taka þátt í Evrópukeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er lykilatriði fyrir okkur að skora fleiri mörk.
,,Það er lykilatriði fyrir okkur að skora fleiri mörk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta er fín spá. Það skiptir mig engu máli hvar okkur er spáð. Það sem skiptir máli er hvað við ætlum okkur. Við ætlum okkur að gera jafn vel og í fyrra ef ekki betur," segir Ólafur Þórðarson þjálfari Víkinga sem er spáð sjöunda sæti í Pepsi-deildinni í sumar.

Víkingar enduðu í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra sem nýliðar og leika því í Evrópukeppninni í sumar.

,,Það verður frábært að taka þátt í Evrópukeppninni. Aðal atriðið er að fara vel yfir andstæðingana sem við mætum hverju sinni. Það á ekki að þurfa mótivera menn sérstaklega fyrir Evrópuleikina. Þeir eiga að vera klárir í það."

Ósáttur að Hallgrímur Mar sé frá
Víkingar hafa verið duglegir á leikmannamarkaðnum í vetur og miklar breytingar hafa orðið á leikmannahóp Víkinga. Tólf leikmenn hafa komið og níu horfið á braut. Ólafur segist vera mjög ánægður með hópinn sem hann hefur í höndunum.

,,Það eru breytingar á hópnum, það er alveg ljóst. Það hefur hinsvegar gengið ágætlega að smyrja þetta saman í vetur. Hann hefur breikkað töluvert frá því í fyrra. Við höfum unnið í því í vetur að styrkja þá veikleika sem við töldum að við þyrftum að styrkja."

,,Eina sem ég er ósáttur með er að Hallgrímur Mar hefur verið meiddur. Það er mjög svekkjandi þar sem hann var mjög lofandi. Ég vona að hann verði leikfær í byrjun móts. Eins og staðan er núna, þá er hann sá sem er lengst í."

Vorum í vandræðum með breiddina
Þrátt fyrir miklar breytingar á hópnum, ætlar Óli að reyna halda í svipaðan leikstíl og var í fyrra.

,,Við vorum í ákveðnum vandræðum útaf lítilli breidd í fyrra. Við höfum breikkað hópinn og þá sérstaklega sóknarlega. Við skorum næst fæst mörk í deildinni í fyrra en endum í fjórða sæti. Við höldum áfram að byggja á því, spila sterkan varnarleik og reyna spila góðan sóknarbolta. Það er lykilatriði fyrir okkur að skora fleiri mörk."

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Andri Rúnar Bjarnason gengu til liðs við Víking úr 1. deildinni. Óli segist gera sér grein fyrir því að þeir verði ekki stærstu kandídatarnir að verða leikmenn ársins í úrvalsdeildinni en hefur þó mikla trú á þeim.

,,Hallgrímur Mar var lofandi en á helling í land ennþá vegna meiðslanna. Andri Rúnar hefur verið að ströggla með einhver smá meiðsli. Ég vona að þeir styrki okkur það mikið að við getum bætt okkur síðan í fyrra. Það er alveg ljóst að það tekur leikmenn rúmlega eitt ár að fara úr því að vera góður 1. deildarleikmaður í að verða góður úrvalsdeildarleikmaður. Þetta er stórt skref og það vita það allir. Ég vona að þeir fari allavegana langt með að stíga það skref í sumar."

Markvarðarstaðan hræðir mig ekki
Markvörðurinn, Ingvar Þór Kale hvar af braut í vetur og gekk til liðs við Val. Til að fylla það skarð fengu Víkingar, Danann Thomas Nielsen og Denis Cardaklija. Báðir hafa þeir spilað í markinu í vetur og segist Óli engar áhyggjur hafa af markvarðarmálum liðsins.

,,Þetta horfir ágætlega við mér. Við fengum tvo markmenn sem hafa staðið sig báðir mjög vel. Það er ekki komið á hreint hver spilar. Það er gott að það sé heilbrigð samkeppni á milli þeirra. Það kemur svo í ljós í upphafi móts hver byrjar í markinu," segir Ólafur sem hefur mikla trú á að Daninn, Thomas Nielsen geti bætt sig helling í Víkingsliðinu.

,,Ég gerði mér strax grein fyrir því að hann væri ekki endilega besti markmaður deildarinnar en það sem við vorum að horfa á, er að hann hefur burði til að verða það. Við vonum auðvitað til þess að hann standi sig en að sama skapi höfum við Denis Cardaklija. Hann hefur verið að standa sig mjög vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað. Þetta hræðir mig ekki."

Reiknar enginn með neinu af okkur
,,Það er alveg ljóst að FH eru líklegastir til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Þeir eru með gríðarlega breiðan hóp af reynslu miklum mönnum sem hafa mikla reynslu af toppbaráttu. Það má svo ekki gleyma Stjörnunni sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Það er svo spurning hvort KR blandi sér í baráttuna ásamt fleirum."

,,Það verður svo að koma í ljós hvort okkur tekst að halda í við þessi lið. Það reiknar enginn með neinu af okkur, sem er ágætt."

Víkingur datt út úr Lengjubikarnum í undanúrslitum eftir tap gegn Breiðabliki. Þar á undan sló liðið FH út í 8-liða úrslitum.

,,Við vitum að þegar fótboltinn fer á gras þá breytist hann svolítið. Hlutirnir eru auðveldari á gervigrasi en á grasi. Okkur hefur gengið ágætlega og vorum í rauninni algjörir klaufar að fara ekki alla leið í Lengjubikarnum. Þar fengum við færin til að klára leikinn en vonandi klárum við þau betur í sumar."

Víkingar hefja Íslandsmótið í Sunny Kef þar sem lærisveinar Kristjáns Guðmundssonar taka á móti þeim.

,,Það er gríðarlega mikilvægt að byrja vel í þessu hraðmóti í maí. Við eigum mjög erfiðan útileik í Keflavík í fyrstu umferð sem er ekki auðveldur. Við þurfum að fókusa á hann til að byrja með. Við tökum einn leik fyrir í einu í þessu hraðmóti og svo sjáum við til hvað við uppskárum úr því," segir Ólafur Þórðarson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner