Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 21. júní 2018 15:13
Elvar Geir Magnússon
Þjálfari Nígeríu talar um leik milli þeirra ungu og hinna reyndu
Icelandair
Gernot Rohr, landsliðsþjálfari Nígeríu.
Gernot Rohr, landsliðsþjálfari Nígeríu.
Mynd: Getty Images
„Við erum yngsta liðið í keppninni, við erum að bæta okkur og læra. Þetta er ekki búið eftir þetta heimsmeistaramót," segir Gernot Rohr, landsliðsþjálfari Nígeríu.

Nígería mætir Íslandi á morgun í Volgograd.

„Það verður mjög erfitt að vinna Íslendinga, þeir áttu frábæran leik gegn Argentínu. Liðið er ekki með stórar stjörnur, við erum ekki heldur með stórar stjörnur. Bæði lið leggja upp úr liðsheildinni en þeir hafa meiri reynslu heldur en við. Hinir ungu gegn þeim reyndu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer,"

Þegar Rohr var spurður af því af hverju stór þjóð eins og Nígería ætti ekki stórstjörnur sagði hann að þær væru á leiðinni, liðið væri ungt.

Einhverjar fréttir voru um að eftir Króatíuleikinn hefðu einhverjir leikmenn Nígeríu rifist við stuðningsmenn á samfélagsmiðlum. Sagt var að nígeríska knattspyrnusambandið hefði þurft að gefa skipanir til leikmanna um að vera ekki með svona hegðun.

„Við höfum mjög góðan anda í liðinu. Það eru engin vandamál hjá okkur og við erum tilbúnir í leikinn. Við erum eins og fjölskylda og erum sem ein heild. Við hugsum ekki út í samfélagsmiðla heldur þá vinnu sem mitt unga lið þarf að vinna til að bæta sig sem lið," segir Rohr en leikur Nígeríu og Íslands á morgun verður klukkan 15 að íslenskum tíma.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner