mán 21. júlí 2014 22:41
Brynjar Ingi Erluson
Kristján Gauti búinn að ná samkomulagi við NEC - Fer á miðvikudag
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kristján Gauti Emilsson, leikmaður FH í Pepsi-deild karla, er á leið til NEC Nijmegen í hollensku fyrstu deildinni en hann staðfesti þetta við Fótbolta.net í kvöld.

Kristján Gauti, sem er 21 árs gamall framherji, hefur verið magnaður með FH á þessari leiktíð en hann hefur spilað 9 leiki í deild og skorað fimm mörk.

Hann hefur verið lykilmaður í liðinu sem er í efsta sæti deildarinnar með 28 stig en hann mun semja við NEC Nijmegen í hollensku fyrstu deildinni á miðvikudag.

Hann skoðaði aðstæður hjá félaginu á dögunum og hefur verið í viðræðum við félagið en hann hefur nú náð samkomulagi og mun skrifa undir samning á miðvikudag.

,,Ég hef náð samkomulagi við NEC Nijmegen og mun fara út til Hollands á miðvikudag og ganga endanlega frá þessu," sagði Kristján við Fótbolta.net í kvöld.

Kristján Gauti er uppalinn hjá FH en hann samdi við Liverpool á Englandi í byrjun árs 2010 og var þar fram að miðju sumri 2012 er hann kom aftur í FH.

Hann á samtals 40 leiki með FH í opinberum keppnum og þá hefur hann skorað 7 mörk fyrir félagið. Hann á þá 7 landsleiki fyrir U21 árs landslið Íslands.

Guðlaugur Victor Pálsson er á mála hjá NEC Nijmegen en hann er líklega á förum til Sturm Graz.
Athugasemdir
banner
banner
banner