mán 21. júlí 2014 14:00
Magnús Már Einarsson
Veigar sárkvalinn á sjúkrahúsi - „Þetta var hreint helvíti"
Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stjörnunnar, þurfti að gista nótt á sjúkrahúsi um helgina vegna bakmeiðsla.

,,Ég veit ekki hvað þetta var. Þetta var hreint helvíti. Ég var sárkvalinn og þetta tók þokkalega á," sagði Veigar um meiðslin við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta gerðist um kvöldið eftir leikinn á móti Motherwell á fimmtudag. Þá byrjaði ég allt í einu að fá eitthvað í bakið. Ég var sárkvalinn alla nóttina og í ferðalaginu á leiðinni heim. Þetta skánaði örlítið á föstudagksvöldið þegar við lentum."

,,Þegar ég vaknaði daginn eftir var þetta komið fram í síðuna hjá rifbeinunum. Þá fór maður að hafa smá áhyggjur af þessu, þetta var komið nálægt hjartanu og svona. Ég fór beint upp á bráðamóttöku og ég var þar í sólarhring yfir nóttina."

,,Læknarnir vita ekki nákvæmlega hvað þetta var en þetta gæti hafa verið klemmdur vöðvi eða taug. Þetta var hálf furðulegt. Þetta var helvíti í nokkra daga."


Ætlar að ná síðari leiknum gegn Motherwell
Veigar var ekki með Stjörnunni í 3-1 sigrinum á Fylki í gærkvöldi. ,,Ég horfði á hann heima í sjónvarpinu og það var ljúft að sjá sigurinn," sagði Veigar.

Síðari leikur Stjörnunnar og Motherwell er í Garðabæ á fimmtudag og Veigar vonast til að ná þeim leik.

,,Ég er aðeins skárri núna. Fyrir leikinn á fimmtudag þarf ég að ná aftur upp þoli og næra mig almennilega. Ég þarf að fá góðan svefn og svona. Ég er að vinna í því að safna kröftum og maður hefur þrjá daga til að gera það," sagði Veigar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner