Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 21. júlí 2017 11:20
Magnús Már Einarsson
Hver er staðan hjá Gylfa?
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Wales Online er í dag með langa grein um stöðu Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea. Everton og Leicester hafa reynt að fá Gylfa í sumar en án árangurs.

Swansea hefur hafnað 40 milljóna punda tilboði frá báðum félögum í sumar en Swansea vill fá 50 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Gylfi ákvað á fimmtudaginn í síðustu viku að fara ekki með Swansea í æfingaferð til Bandaríkjanna. Í kjölfarið bjuggust fjölmiðlar ytra við því að Everton myndi ganga frá kaupum á honum.

Reiknað var með að Everton myndi bjóða 45 milljónir punda plús auka greiðslur ef Gylfi myndi standa sig vel hjá félaginu. Rúmri viku síðar hefur hins vegar ekkert gerst í málum Gylfa.

Möguleiki er á að Everton sé að bíða eftir að selja miðjumanninn Ross Barkley áður en félagið kemur með hærra tilboð í Gylfa. Barkley er líklega á förum frá Everton en hann hefur verið orðaður við Tottenham.

Wales Online segir að Gylfi hafi tilkynnt forráðamönnum Swansea að hann vilji fara. Eigendur Swansea vona að honum snúist hugur en það þykir þó ólíklegt.

Gylfi æfir þessa dagana með U23 ára liði Swansea en óvíst er hvað verður þegar aðalliðið kemur heim frá Bandaríkjunum um helgina. Gylfi gæti þá annað hvort hafið æfingar með aðalliði Swansea á nýjan leik eða verið látinn æfa einn á meðan mál hans eru í óvissu.

Paul Clement, stjóri Swansea, sagði í vikunni að ekki sé útilokað að Gylfi verði áfram hjá félaginu en Wales Online telur þó líklegra en ekki að Gylfi endi hjá Everton áður en félagaskiptaglugginn lokar.
Athugasemdir
banner
banner