fim 21. ágúst 2014 22:07
Ívan Guðjón Baldursson
Fred og félagar hóta að spila ekki næsta leik
Fred var í byrjunarliði Brasilíu á HM en skoraði aðeins eitt mark á mótinu og var gagnrýndur harkalega. Núna er svipað ástand hjá Fluminese.
Fred var í byrjunarliði Brasilíu á HM en skoraði aðeins eitt mark á mótinu og var gagnrýndur harkalega. Núna er svipað ástand hjá Fluminese.
Mynd: Getty Images
Brasilíski sóknarmaðurinn Fred og liðsfélagar hans í Fluminese hafa hótað því að spila ekki næsta leik eftir hótanir frá stuðningsmönnum félagsins.

Fluminese hefur ekki verið að ganga sérlega vel í síðustu leikjum og tók hópur stuðningsmanna félagsins upp á því að kasta hlutum að leikmönnum liðsins og í bíla þeirra.

Stuðningsmennirnir kölluðu leikmennina málaliða og köstuðu smápeningum í þá á vellinum eftir þriðja tap liðsins í röð.

Leikmennirnir þurftu að fara út af leikvanginum gegnum bakdyrnar því stuðningsmennirnir sýndu ofbeldisfulla hegðun og biðu eftir þeim fyrir utan aðalinnganginn.

,,Ef ekkert verður aðhafst og þessir heiglar reyna að ráðast að leikmönnum aftur þá mun ég, sem fyrirliði, koma leikmönnunum saman um að spila ekki sunnudagsleikinn gegn Sport," sagði Fred.

Fluminese er í fimmta sæti brasilísku deildarinnar, sjö stigum frá toppliði Cruzeiro, en hefur ekki unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum í öllum keppnum.
Athugasemdir
banner
banner