sun 21. september 2014 20:00
Alexander Freyr Tamimi
Mourinho kallaði stjóra Man City "Pellegrino" í tvígang
Mourinho og Pellegrini ræða málin í dag.
Mourinho og Pellegrini ræða málin í dag.
Mynd: Getty Images
Óhætt er að segja að ákveðinn sandkassaleikur hafi átt sér stað á milli knattspyrnustjóra tveggja stærstu félaga Englands, þeirra Jose Mourinho og Manuel Pellegrini, fyrir og eftir 1-1 jafntefli Manchester City og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir leikinn hélt Pellegrini, stjóri City, því fram að Chelsea hefði spilað eins og Stoke, eða að minnsta kosti ekki eins og stórlið.

Líkt og vanalega var ekki langt í gott svar frá Jose Mourinho, sem ákvað á lúmskan hátt að gera lítið úr Pellegrini með því að kalla hann "Pellegrino" í tvígang, mjög líklega viljandi.

Mourinho tók einmitt við Real Madrid af Pellegrini árið 2010 og veit því líklega alveg hvað Síle-maðurinn heitir.

,,Pellegrino segir það oft að hann ræði aldrei um mig eða mitt lið, en hann heldur áfram að gera það sama," sagði Mourinho á blaðamannafundinum.

,,Ég er sá sem gerir það sem hann segist gera, ég tjái mig ekki um hans ummæli. Ekki spyrja mig út í hans ummæli, ég hef ekki áhuga á þeim."

,,Ég ætla ekki að ræða um Frank Lampard, hann er leikmaður Manchester City. Ég ræði ekki um leikmenn annarra liða. Hr. Pellegrino ætti að tala um Frank Lampard í stað þess að tala um leikmenn annarra liða."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner