fös 21. nóvember 2014 12:33
Magnús Már Einarsson
Neil Lennon: Eiður er í góðu formi
Spilar tvo leiki á næstu dögum
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Neil Lennon, stjóri Bolton, vill sjá Eið Smára Guðjohnsen spila tvo leiki áður en hann ákveður hvort félagið muni semja við leikmanninn.

Eiður gæti leikið með varaliði Bolton í varaliðsleik gegn Middlesbrough 1. desember en sá leikur fer fram á aðalleikvangi félagsins.

,,Við vonumst til að hann geti spilað tvo æfingaleiki eða jafnvel varaliðsleik á næstu sjö til tíu dögum," sagði Lennon í dag.

,,Það er ekki mitt að dæma hvernig Eiði líður en en hann lítur vel út, hefur æft vel og hann er í góðu formi. Hann er hungraður og ákveðinn í að komast aftur í enska boltann."

Hinn 36 ára gamli Eiður er án félags í augnablikinu en stuðningsmenn Bolton vilja ólmir sjá hann aftur hjá félaginu. Eiður hefur æft með Bolton undanfarna daga en hann spilaði með liðinu frá 1998 til 2000.

,,Þegar við fengum símtal í síðustu viku vorum við Phil (Gartside, formaður Bolton) ekki í vafa um að gefa honum tækifæri. Við sjáum hvernig þetta fer."

,,Þú getur séð á æfingum að hann er klassa leikmaður en hvort við gerum eitthvað ræðst líklega á forminu hans. Við höfum séð hann æfa og hann lítur vel út en ég vil sjá hann á stærra sviði. Miðað við það sem ég hef séð hingað til þá hef ég engar áhyggjur."

Athugasemdir
banner
banner