Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 21. nóvember 2014 14:00
Magnús Már Einarsson
Viðtal
„Vildi fara heim til Íslands að hjálpa mömmu“
Viðar Örn í viðtali hjá Fótbolta.net.
Viðar Örn í viðtali hjá Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Menn hafa talað um veðmálasvindl í leiknum á móti Fjarðabyggð.  Þetta er kannski einhver grín saga og ég veit ekki hvað er til í þessu en það var búið að veðja óeðlilega mikið á að Fjarðabyggð sem var í 10. sæti myndi vinna þennan leik. Þetta átti að vera skyldusigur fyrir okkur.
,,Menn hafa talað um veðmálasvindl í leiknum á móti Fjarðabyggð. Þetta er kannski einhver grín saga og ég veit ekki hvað er til í þessu en það var búið að veðja óeðlilega mikið á að Fjarðabyggð sem var í 10. sæti myndi vinna þennan leik. Þetta átti að vera skyldusigur fyrir okkur.
Mynd: Guðmundur Karl
,,Ég var að hlaupa upp brekkur með Heimi Hallgríms og var í þvílíkt góðu formi í febrúar. Ég skoraði 30 mörk í 15 leikjum á undirbúningstímabilinu en var ekki nógu þroskaður í hausnum til að halda því við.
,,Ég var að hlaupa upp brekkur með Heimi Hallgríms og var í þvílíkt góðu formi í febrúar. Ég skoraði 30 mörk í 15 leikjum á undirbúningstímabilinu en var ekki nógu þroskaður í hausnum til að halda því við.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Sleit krossband gegn FH.  ,, Tímabilið gekk ekki vel hjá mér og ég var mjög pirraður.  Ég lenti á smá vegg þarna eftir að allt hafði gengið upp á ferlinum fram að þessu.
Sleit krossband gegn FH. ,, Tímabilið gekk ekki vel hjá mér og ég var mjög pirraður. Ég lenti á smá vegg þarna eftir að allt hafði gengið upp á ferlinum fram að þessu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Á þessum tímapunkti setti ég markmið um að vera kominn í atvinnumennsku innan þriggja ára. Logi Ólafsson þáverandi þjálfari Selfoss hafði mikla trú á mér og við ræddum þetta.  Ég vildi ekki spila í 1. deildinni en ég var ekki eftirsóttur biti á markaðinum og gat ekki gert neitt annað.
,,Á þessum tímapunkti setti ég markmið um að vera kominn í atvinnumennsku innan þriggja ára. Logi Ólafsson þáverandi þjálfari Selfoss hafði mikla trú á mér og við ræddum þetta. Ég vildi ekki spila í 1. deildinni en ég var ekki eftirsóttur biti á markaðinum og gat ekki gert neitt annað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég hef alltaf æft mjög mikið aukalega.  Ef ég fer ekki í ræktina í 1-2 vikur finnst mér ég hafa misst kraft og mér líður illa ef að ég fer ekki í ræktina 2-3 í viku.  Ef ég hleyp ekki mikið auka finnst mér ég vera þreyttur strax.  Mér finnst ég þurfa að æfa meira en aðrir til að vera venjulegur.“
,,Ég hef alltaf æft mjög mikið aukalega. Ef ég fer ekki í ræktina í 1-2 vikur finnst mér ég hafa misst kraft og mér líður illa ef að ég fer ekki í ræktina 2-3 í viku. Ef ég hleyp ekki mikið auka finnst mér ég vera þreyttur strax. Mér finnst ég þurfa að æfa meira en aðrir til að vera venjulegur.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég að fara að velja ÍA fram yfir Fylki.  Mér leist betur á það á ákveðnum tímapunkti.
,,Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég að fara að velja ÍA fram yfir Fylki. Mér leist betur á það á ákveðnum tímapunkti.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Í klippingu hjá pabba.  ,,Í Noregi syngur hann með stuðningsmönnum og hann passar frábærlega inn í þar.  Það er frábært að hafa hann til að hjálpa manni.“
Í klippingu hjá pabba. ,,Í Noregi syngur hann með stuðningsmönnum og hann passar frábærlega inn í þar. Það er frábært að hafa hann til að hjálpa manni.“
Mynd: Úr einkasafni
,,Ég vildi fara til Íslands og klára þetta sjálfur.  Ég er ekki að tala um að gera neitt sjálfur heldur þrýsta á yfirvöld að græja þetta.  Ég veit að ef að ég væri á Íslandi myndi þetta ekki gerast.  Ég væri búinn að koma í veg fyrir þetta, hvernig sem ég myndi gera það.
,,Ég vildi fara til Íslands og klára þetta sjálfur. Ég er ekki að tala um að gera neitt sjálfur heldur þrýsta á yfirvöld að græja þetta. Ég veit að ef að ég væri á Íslandi myndi þetta ekki gerast. Ég væri búinn að koma í veg fyrir þetta, hvernig sem ég myndi gera það.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
,,Ég var ekkert að pæla í þessu inni á vellinum heldur meira þegar ég var heima.  Þetta náði að reita mann til reiði en það sem var mest pirrandi var að vera í Noregi og geta ekkert gert.
,,Ég var ekkert að pæla í þessu inni á vellinum heldur meira þegar ég var heima. Þetta náði að reita mann til reiði en það sem var mest pirrandi var að vera í Noregi og geta ekkert gert.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég skora á lögregluna að gera eitthvað í þessu sem fyrst.  Maðurinn er búinn að fá fangelsis dóm og er ekki í fangelsi eftir því sem ég best veit.  Það er mjög lélegt.
,,Ég skora á lögregluna að gera eitthvað í þessu sem fyrst. Maðurinn er búinn að fá fangelsis dóm og er ekki í fangelsi eftir því sem ég best veit. Það er mjög lélegt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það var ekkert að frétta og við töpuðum á móti lélegri liðum en okkur.  Það fór virkilega í taugarnar á mér því að ég vildi enda tímabilið vel.  Ég vil ekki kenna liðinu um allt, ég átti að gera betur að einhverju leyti en mönnum var alveg sama og menn voru farnir að slaka á.“
,,Það var ekkert að frétta og við töpuðum á móti lélegri liðum en okkur. Það fór virkilega í taugarnar á mér því að ég vildi enda tímabilið vel. Ég vil ekki kenna liðinu um allt, ég átti að gera betur að einhverju leyti en mönnum var alveg sama og menn voru farnir að slaka á.“
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
,,Systir mín setti status að ef hún myndi fá 2000 like yrði ég að hætta að fara í ljós.  Þegar ég var 16 ára fór ég tvisvar í viku í ljós.  Þannig var þetta á Selfossi og það breytist ekki.
,,Systir mín setti status að ef hún myndi fá 2000 like yrði ég að hætta að fara í ljós. Þegar ég var 16 ára fór ég tvisvar í viku í ljós. Þannig var þetta á Selfossi og það breytist ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Fagnaði öllum 25 mörkunum eins.  ,,Það er stórskemmtileg saga á bakvið þetta en Eiríkur Raphael Elvy vinur minn og fyrirliði Árborgar á heiðurinn að henni.   Ég sagði við fjölmiðla að þetta væri saga sem gæti ekki komið í blöðum því að þá geta krakkar lesið þetta.  Sagan er 18+.
Fagnaði öllum 25 mörkunum eins. ,,Það er stórskemmtileg saga á bakvið þetta en Eiríkur Raphael Elvy vinur minn og fyrirliði Árborgar á heiðurinn að henni. Ég sagði við fjölmiðla að þetta væri saga sem gæti ekki komið í blöðum því að þá geta krakkar lesið þetta. Sagan er 18+.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég fór í geðveika villu í Osló þar sem að ég stelpa sem var módel vorum í tvo klukkutíma að láta taka myndir af okkur.  Þetta kom skemmtilega út og það var fjallað um þetta í öllum fjölmiðlum.
,,Ég fór í geðveika villu í Osló þar sem að ég stelpa sem var módel vorum í tvo klukkutíma að láta taka myndir af okkur. Þetta kom skemmtilega út og það var fjallað um þetta í öllum fjölmiðlum.
Mynd: Örn
,,Strákarnir Skímó, bestu hljómsveit Íslands, eru að reyna að semja lag fyrir mig.  Það gæti verið að maður gefi út eitt lag með þeim á næstunni.  Þeir vilja komast inn á norskan markað og það getur verið að maður taki lagið með þeim.  Það er fínt að hjálpa þeim en hvort ég hafi gæðin í það verður að koma í ljós.
,,Strákarnir Skímó, bestu hljómsveit Íslands, eru að reyna að semja lag fyrir mig. Það gæti verið að maður gefi út eitt lag með þeim á næstunni. Þeir vilja komast inn á norskan markað og það getur verið að maður taki lagið með þeim. Það er fínt að hjálpa þeim en hvort ég hafi gæðin í það verður að koma í ljós.
Mynd: Kenneth Myhre - Kennethmyhre.net
Árið 2012 féll Viðar Örn Kjartansson í annað skipti úr Pepsi-deildinni með uppeldisfélagi sínu Selfossi. Tveimur árum síðar hefur Viðar unnið sér sæti í íslenska landsliðinu og stimplað sig inn í norsku úrvalsdeildina með því að vera markakóngur með Valerenga. Í síðustu viku settist Fótbolti.net með Viðari í klukkutíma og ræddi allt milli himins og jarðar. Í viðtalinu hér að neðan ræðir Viðar um gleði og vonbrigði á ferlinum hingað til, ofsóknir sem móðir hans hefur lent í, sögu um veðmálasvindl á Íslandi, ljósabekki, fagnið í Noregi, Skítamóral og margt fleira.

Viðar Örn byrjaði fjögurra ára að æfa fótbolta og allt frá unga aldri var ljóst að hann væri efnilegur leikmaður. Sextán ára gamall spilaði Viðar sína fyrstu meistaraflokksleiki í 2. deild en tveimur árum síðar, árið 2008, lét hann fyrst til sín taka af alvöru í meistaraflokki. Selfoss hafði árið áður farið upp úr 2. deildinni og liðið var hársbreidd frá því að komast beint upp í Pepsi-deildina árið 2008. Tap gegn Fjarðabyggð í næst síðustu umferðinni kom í veg fyrir það.

,,Menn hafa talað um veðmálasvindl í leiknum á móti Fjarðabyggð. Þetta er kannski einhver grín saga og ég veit ekki hvað er til í þessu en það var búið að veðja óeðlilega mikið á að Fjarðabyggð sem var í 10. sæti myndi vinna þennan leik. Þetta átti að vera skyldusigur fyrir okkur,“ sagði Viðar.

,, Menn voru ekki sáttir við liðsvalið í þessum leik. Zoran (Miljkovic) er kominn aftur á Selfoss núna og hann er góður maður sem hjálpaði mér mikið. Ég veit ekki hvort að menn séu að beina þessu beint að honum en Sigurður Eyberg Guðlaugsson var til að mynda hvíldur í leiknum. Við vorum báðir nýbúnir að spila með U19 ára landsliðinu en ég spilaði leikinn gegn Fjarðabyggð en ekki Siggi af því að hann var hvíldur. Hann kom bara með okkur austur og fór síðan út í sjoppu og fékk sér bragðaref áður en hann horfði á leikinn.“

Grunur um veðmálasvindl
Selfoss tapaði leiknum gegn Fjarðabyggð 2-1 en miðjumaðurinn Boban Jovic fékk rautt spjald á 43. mínútu. ,,Hann tæklaði fyrst leikmann og síðan kýldi hann annan leikmann þegar hann var með gult spjald. Hann var ekki búinn að fá gult spjald allt sumarið svo þetta var frekar skrýtið. Ég veit ekki hvort að þjálfarinn hafi verið með í þessu, það gæti verið að útlensku leikmennirnir hafi verið í þessu.“

,,Ég heyrði þessa sögu bara fyrst fyrir ári og hef bara hlegið að henni en það voru magnaðir hlutir sem gerðust þarna. Ef við hefðum unnið þennan leik værum við líklega stórveldi í íslenskri knattspyrnu í dag,“
segir Viðar og brosir.

,,Stjarnan endaði í 2. sæti þetta árið og fór upp með ÍBV. Við settum Stjörnuna af stað. Þarna var Stjarnan búin að spila í 1. deild í nokkur ár og við áttum klárlega skilið að komast upp eftir að hafa verið fyrir ofan þá í 19 leiki í mótinu. Menn voru svekktir en þarna var stemningin mikil í bæjarfélaginu og þarna byrjaði blómatímabiið hjá Selfossi.“

Sleit krossband á meðan Selfoss fór upp
Eftir vonbrigðin að komast ekki upp í Pepsi-deildina ákvað Viðar að söðla um og ganga til liðs við ÍBV. Sú dvöl átti þó ekki eftir að reynast honum alltof happadrjúg.

,,Það hefði verið allt í lagi að taka eitt tímabil til viðbótar með Selfossi en ég hafði gífurlega mikla trú á sjálfum mér og hélt að næsta skref væri að fara í Pepsi-deildina. Ég byrjaði svakalega vel í Eyjum og toppaði alltof snemma. Ég var að hlaupa upp brekkur með Heimi Hallgríms og var í þvílíkt góðu formi í febrúar. Ég skoraði 30 mörk í 15 leikjum á undirbúningstímabilinu en var ekki nógu þroskaður í hausnum til að halda því við. Ég setti svakalega mikla pressu á mig og allir héldu að ég myndi skora 15 mörk í deildinni. Ég skoraði ekki fyrr en í 6. umferð og datt síðan út í liðinu áður en ég sleit krossband á móti FH (í 20. umferð).“

Á sama tíma og Viðar sleit krossband náði Selfoss að vinna 1. deildina og komast upp í deild þeirra bestu í fyrsta skipti.

,,Það var gríðarlega erfitt að horfa á það og taka ekki þátt í því. Ég gladdist með félögunum á Selfossi að komast upp en ég hefði viljað vera partur af þessu. Tímabilið gekk ekki vel hjá mér og ég var mjög pirraður. Ég lenti á smá vegg þarna eftir að allt hafði gengið upp á ferlinum fram að þessu," sagði Viðar sem segist hinsvegar ekki sjá eftir tímanum í Eyjum og það hafi gert hann að betri og sterkari manni.

Pirringur í fólki á Selfossi
Eftir að hafa jafnað sig af krossbanda meiðslunum gekk Viðar aftur til liðs við Selfoss sumarið 2010. Þar spilaði Viðar tólf leiki og skoraði þrjú mörk þó að meiðslin hafi ennþá truflað hann. Hann fann einnig að ýmsir aðilar voru ennþá fúlir yfir að hann hefði ákveðið að ganga í raðir ÍBV á sínum tíma.

,,Það var ekki sami stuðningurinn við mig áður en ég fór og eftir að ég kom aftur á Selfoss. Það var pirringur í tvö ár á eftir. Það var ekki talað vel um mann og fólk í stúkunni lét mig meira heyra það. Þetta voru alls ekki allir stuðningsmenn en maður fann að maður var ekki með sama stuðninginn og margir aðrir leikmenn.“

Ákvað að fara í atvinnumennsku innan þriggja ára
Selfoss féll úr Pepsi-deildinni 2010 og þar sem Viðar var samningsbundinn félaginu var ljóst að hann myndi spila í 1. deildinni á nýjan leik árið 2011.

,,Á þessum tímapunkti setti ég markmið um að vera kominn í atvinnumennsku innan þriggja ára. Logi Ólafsson þáverandi þjálfari Selfoss hafði mikla trú á mér og við ræddum þetta. Ég vildi ekki spila í 1. deildinni en ég var ekki eftirsóttur biti á markaðinum og gat ekki gert neitt annað. Ég tók slaginn í 1. deildinni og við komumst upp með glæsibrag.“

Selfoss féll aftur úr Pepsi-deildinni árið 2012 þrátt fyrir að Viðar, Jón Daði Böðvarsson og Ólafur Karl Finsen hafi verið á meðal leikmanna liðsins. ,,Við vorum með gott lið með fullt af góðum leikmönnum og það var algjört klúður að falla. Gæðin voru alveg til staðar en það vantaði meiri reynslu og andlegan styrk,“ sagði Viðar sem skoraði sjö mörk um sumarið.

,,Ég tognaði á liðbandi korter í mót og gat ekkert notað hægri löppina fyrr en í sjöundu umferð. Ég náði ekki þessu starti sem ég oft náð. Heilt yfir var þetta ágætis tímabil en ég vildi gera miklu betur en þetta. Það er fínt að vera meðalleikmaður í Pepsi-deildinni en ég taldi mig eiga mikið inni og ég hef bætt mig mikið síðan þarna,“ sagði Viðar sem hefur alltaf æft mjög mikið.

,,Ég hef alltaf æft mjög mikið aukalega. Ef ég fer ekki í ræktina í 1-2 vikur finnst mér ég hafa misst kraft og mér líður illa ef að ég fer ekki í ræktina 2-3 í viku. Ef ég hleyp ekki mikið auka finnst mér ég vera þreyttur strax. Mér finnst ég þurfa að æfa meira en aðrir til að vera venjulegur.“

Ætlaði að fara í ÍA frekar en Fylki
Haustið 2012 ákvað Viðar að nú væri kominn tími á að yfirgefa Selfoss á nýjan leik. ,,Ef ég hefði farið aftur í 1. deildina með Selfoss 23 ára þá hefði ég getað sagt bless við framann. Ég og fjölskyldan ákváðum að setja allt á fullt til að komast í Pepsi-deildina. Það gekk ekkert rosalega vel að skipta um lið. Ég var samningsbundinn og átti fyrst að fara á láni sem hefði verið dýrt fyrir hin félögin.“

,,Á einhverjum tímapunkti stóð valið á milli þess að fara til ÍA eða Fylkis á láni. ÍA taldi síðan að það væri of dýrt að fá mig á láni og þá var Fylkir eftir. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég að fara að velja ÍA fram yfir Fylki. Mér leist betur á það á ákveðnum tímapunkti. Þeir höfðu endað ofar í deildinni árið áður og eftir að hafa búið á Selfossi þá hefði ég örugglega passað vel á Skaganum.“

Eftir að Skagamenn heltust úr lestinni náði Fylkir samkomulagi við Selfoss um kaup á Viðari. Hann endaði síðan með bronsskóinn í Pepsi-deildinni í fyrra.

,,Ég ætlaði að vera einn af þremur markahæstu mönnum deildarinnar. Ég og umboðsmaðurinn töldum að ég þyrfti að gera það til að komast út. Þetta eru bara 22 leikir og maður þarf að stimpla sig inn með 3-4 mörkum í fyrstu 5 leikjunum til að komast í gang. Það gekk mjög vel hjá mér.“

Missti af gullskó og 50 þúsund kalli
Fylkir vann ekki leik í fyrri umferðinni en í síðari umferðinni gekk betur og Viðar raðaði inn mörkum. Fyrir lokaumferðina var hann markahæstur í deildinni með 12 mörk, marki á undan Atla Viðari Björnssyni og Gary Martin. Þrátt fyrir að skora gegn ÍA í lokaumferðinni þá dugði það ekki fyrir Viðar sem þurfti á endanum að sætta sig við bronsskóinn.

,,Ég skoraði eitt mark í lokaumferðinni og hélt að ég væri kominn með þetta en þeir skoruðu báðir tvö mörk. Þeir spiluðu færri mínútur og enduðu fyrir ofan mig. Ég átti að skora fleiri mörk gegn ÍA því að þeir voru fallnir og höfðu að engu að keppa. Ég var orðinn of öruggur með mig eftir að ég skoraði eitt mark. Björn Daði Björnsson frændi minn var í stúkunni með 50 þúsund kall í reiðufé og hann ætlaði að gefa mér peninginn ef ég myndi vinna gullskóinn. Eftir leik flaggaði hann 50 þúsund kallinum framan í mig og ég fékk hann ekki. Það var pirrandi.“

Pabbi sér um klippinguna
Viðar áttaði sig á því undir lok leiks á Akranesi að gullskórinn væri í hættu. ,,Þegar ég sá pabba labba um í stúkunni gat ég ímyndað mér að ég væri ekki sloppinn,“ sagði Viðar en faðir hans Kjartan Björnsson, rakari, er vel þekktur á Selfossi.

Kjartan er duglegur að mæta á leiki hjá Viðari og hvetja soninn til dáða. Í sumar hefur Kjartan mætt fjórum sinnum til Noregs á leiki en hann hefur einnig séð um að klippa son sinn í leiðinni. Kjartan er ekki alltaf rólegur í stúkunni.

,,Hann væri líklega ennþá stressaðari ef hann væri ekki búinn að fá sér nokkra kalda. Hann fær sér yfirleitt 3-4 fyrir leiki til að mýkja sig aðeins. Í Noregi syngur hann með stuðningsmönnum og hann passar frábærlega inn í þar. Það er frábært að hafa hann til að hjálpa manni.“

Vildi fara til Íslands til að hjálpa móður sinni
Móðir Viðars og Kjartan slitu samvistum árið 2000. Ásdís Viðarsdóttir, móðir Viðars, býr í dag á Þórshöfn en þangað neyddist hún til að flytja í fyrra eftir ofbeldi og ofsóknir hjá fyrrum kærasta sínum sem hún kynntist árið 2011. Maðurinn hefur ítrekað hótað Ásdísi og í sumar var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi. Hann er þó ekki byrjaður að taka út refsingu sína.

,,Þetta er leiðindarmál en ég held að þetta sé eitthvað að lagast,“ segir Viðar en hótanirnar gengu hvað lengst síðastliðið vor þegar meðal annars var fjallað um málið í Kastljósi sem og í fleiri íslenskum og norskum fjölmiðlum.

,,Mér var ekki alveg sama þá. Ég vildi fara til Íslands og klára þetta sjálfur. Ég er ekki að tala um að gera neitt sjálfur heldur þrýsta á yfirvöld að græja þetta. Ég veit að ef að ég væri á Íslandi myndi þetta ekki gerast. Ég væri búinn að koma í veg fyrir þetta, hvernig sem ég myndi gera það,“ sagði Viðar en málið truflaði hann ekki innan vallar því hann raðaði inn mörkum með Valerenga.

,,Forráðamenn íhuguðu að senda mig til Íslands þegar þeir sáu þetta í blöðunum í vor en það gekk ekki upp af því að það var mikið af leikjum hjá liðinu. Þetta truflaði ekki frammistöðuna inni á vellinum. Fólk var hissa hvað gekk vel hjá mér þegar þetta var í blöðunum. Ég var ekkert að pæla í þessu inni á vellinum heldur meira þegar ég var heima. Þetta náði að reita mann til reiði en það sem var mest pirrandi var að vera í Noregi og geta ekkert gert.“

Skorar á lögregluna að gera eitthvað
Á dögunum var greint frá því að Hólmfríður Erna, eldri systir Viðars, hefði einnig orðið fyrir hótunum frá manninum. ,,Ég hef sjálfur ekki lent í hótunum en ég hef fengið einhver SMS að nóttu til sem gáfaðasti maður í heimi gæti ekki einu sinni lesið úr. Þetta er stolið úr myndum og þetta er texti sem maður myndi ekki skilja þó að maður myndi kunna öll tungumál í heimi. Ég reiddist aðeins eftir þessi SMS skilaboð og þá hætti þetta strax.“

,,Ég skora á lögregluna að gera eitthvað í þessu sem fyrst. Maðurinn er búinn að fá fangelsis dóm og er ekki í fangelsi eftir því sem ég best veit. Það er mjög lélegt. Löggan segist ekki geta gert neitt og hún er kannski að bíða eftir að eitthvað gerist. Maður veit ekki hvað svona menn geta gert og það er oft hægt að grípa í taumana áður en hlutirnir gerast til að þeir endi vel.“


Átti bestu æfingu ævi sinnar á reynslu
Valerenga keypti Viðar frá Fylki eftir síðasta tímabil en fleiri félög á Norðurlöndunum höfðu sýnt honum áhuga. Eftir að Viðar fór til Valerenga á reynslu fyrir rúmu ári síðan var ljóst að hann myndi enda þar.

,,Ég skoraði þrennu í æfingaleik og ég vissi strax að þeir ætluðu að kaupa mig. Á síðustu æfingunni átti ég mína bestu æfingu á ævinni og þeir eru ennþá að tala um hana þarna. Við vorum að spila 4 á 4 og ég skoraði 30 mörk í sjö leikjum. Þeir lofuðu að kaupa mig en ég þurfti að bíða í tvo mánuði eftir að þeir myndu selja leikmann áður en ég skrifaði undir.“

Viðar hóf æfingar hjá Valerenga í byrjun árs og þar fékk hann að kynnast alvöru undirbúningstímabili. ,,Þetta var erfiðara en í Vestmannaeyjum og þá er mikið sagt. Maður man varla eftir þessum mánuðum. Maður svaf alltaf í nokkra klukkutíma eftir æfingu,“ sagði Viðar en hann byrjaði að skora strax í upphafi móts og gaf hvergi eftir.

,,Fyrstu umferðirnar var ég alltaf með fleiri mörk en leiki og þetta er búið að vera þvílíkt ævintýri. Ég er að spila með liði sem hentar mér vel og leitar mikið að mér. Ég fæ mikið af krossum og stungusendingum og passa vel inn í liðið.“

Liðið hætti undir lok móts
Markametið í norsku úrvalsdeildinni er 30 mörk og norskir fjölmiðlar voru farnir að sjá Viðar slá það undir lok móts.

,,Ég var kominn með 24 mörk eftir 22 leiki og þá fóru fjölmiðlar að tala um metið á fullu. Ég skoraði 25. markið í 25. umferð en þegar við áttum ekki séns á því að enda í topp þremur lengur þá fannst mér liðið hætta. Maður fékk ekki sendingarnar sem maður var vanur að fá og mér leið eins og leikmenn vildu komast í frí. Það var ekkert að frétta og við töpuðum á móti lélegri liðum en okkur. Það fór virkilega í taugarnar á mér því að ég vildi enda tímabilið vel. Ég vil ekki kenna liðinu um allt, ég átti að gera betur að einhverju leyti en mönnum var alveg sama og menn voru farnir að slaka á.“

Kæfður í umfjöllun
Um leið og Viðar byrjað að skora grimmt í fyrstu umferðunum fóru norskir fjölmiðlar að fjalla mikið um hann. ,,Þeir eru miklu dramatískari úti en heima. Þeir bönkuðu upp á heima hjá mér einu sinni og einhverntímann tóku þeir viðtal fyrir utan heima hjá mér þegar ég var í körfubolta með vinum mínum,“ útskýrir Viðar sem notaði ensku í viðtölunum.

,,Ég var kæfður í umfjöllun. Ég fór í 4-5 sjónvarpsviðtöl á dag, var í stærstu sjónvarpsþáttunum í Noregi og ég veit ekki hvað og hvað. Ég held að ég hafi verið að fara í 40 viðtöl á viku á einhverjum tímapunkti þrátt fyrir að fjölmiðlafulltrúinn hafi neitað fullt af beiðnum um viðtöl. Þetta er bara vinnan þín og þú þarft að vera fljótur að venjast þessu. Fjölmiðlarnir vissu ekki mikið um mig og þeir vildu vita allt um mig. Það var búið að grafa fullt upp frá Íslandi og ég fékk alls konar spurningar.“

Hættur í ljósabekkjunum
Norskir fjölmiðlar fjölluðu meðal annars um Facebook status sem Katrín Arna, yngri systir Viðars, gerði í desember í fyrra til að fá framherjann til að hætta að venja komur sínar á ljósastofur.

,,Systir mín setti status að ef hún myndi fá 2000 like yrði ég að hætta að fara í ljós. Þegar ég var 16 ára fór ég tvisvar í viku í ljós. Þannig var þetta á Selfossi og það breytist ekki. Þegar maður var eldri þá fór maður kannski einu sinni í mánuði en þetta er rétt hjá systur minni. Það er ekki hollt að fara í ljós,“ segir Viðar og bætir við að hann hafi alveg lagt ljósabekkina til hliðar. ,,Ég á heima við hliðina á ljósastofu í Noregi en ég hef ekki farið í ljós síðan að systir mín gerði þennan status.“

Sagan á bakvið fagnið 18+
Viðar fagnaði öllum 25 mörkum sínum á tímabilinu með því að taka „Z-fagnið“ sem hann bjó til fyrir tímabilið ásamt vinum sínum. Norskir fjölmiðlar reyndu ítrekað að fá söguna um fagnið upp úr Viðari en án árangurs.

,,Það er stórskemmtileg saga á bakvið þetta en Eiríkur Raphael Elvy vinur minn og fyrirliði Árborgar á heiðurinn að henni. Ég sagði við fjölmiðla að þetta væri saga sem gæti ekki komið í blöðum því að þá geta krakkar lesið þetta. Sagan er 18+,“ sagði Viðar en fagnið hefur orðið vinsælt.

,,Eiríkur tók sjálfur þetta fagn í sumar sem og fleiri leikmenn í Árborg. Jón Daði tók þetta líka hjá Viking og einn úr liðinu mínu fagnaði marki svona. Það voru líka fullt af leikmönnum í norsku neðri deildunum að taka þetta fagn. Þetta er orðið trend.“

Auglýsti heita potta
Umfjöllunin utan vallar var ekki einunis í fjölmiðlum því að Viðar var farinn að auglýsa heita potta í Noregi í sumar. Fyrirtæki sem framleiðir heita potta skýrði einn heita pottinn Örn í höfuðið á Viðari Erni.

,,Það var einhver stuðningsmaður Valerenga sem hafði samband við mig á Facebook þegar ég var nýkominn út. Hann er með heita potta fyrirtæki og spurði hvort ég væri tilbúinn í myndatöku til að auglýsa heita pottana hjá þeim. Þeir voru með íslenskt þema og vildu íslenskan fótboltamann til að auglýsa þetta. Hann lofaði að borga ákveðna upphæð fyrir þetta sem ég samþykkti. Síðar um sumarið var komið að þessu og þá gaf hann mér ennþá hærra tilboð þar sem að hann vildi meina að markaðsgildi mitt hefði hækkað eftir mörkin sem ég hafði skorað.“

Viðar segir að það hafi verið skemmtileg reynsla að taka upp auglýsinguna í sumar. ,,Ég fór í geðveika villu í Osló þar sem að ég og stelpa sem var módel vorum í tvo klukkutíma að láta taka myndir af okkur. Þetta kom skemmtilega út og það var fjallað um þetta í öllum fjölmiðlum,“ sagði Viðar sem fékk sjálfur einn heitan pott sem hluti af samningnum. ,,Ég mátti senda einn pott heim og mamma er að fara að fá hann bráðum.“

Mun gefa út lag með Skítamóral
Viðar lét ekki nægja að auglýsa heita potta því að hann tók einnig lagið í haust til styrktar Valerenga. Það sló í gegn og Viðar var um tíma með eitt vinsælasta lagið í Noregi.
,,Þetta var í öðru sæti á Itunes í Noregi þegar best lét. Það var pressað á mig að gera þetta til að safna pening fyrir félagið. Ég átti að velja cover lag og ég valdi lagið My Sacrifice með Creed sem er ein besta hljómsveit í heimi. Mér leist ekkert á þetta til að byrja með en síðan var ég nokkuð sáttur með niðurstöðuna. Þetta átti samt að vera meira grín en alvara. Ég er ekki að fara á fullu í tónlistarbransann,“ sagði Viðar sem gæti þó rifið míkrafóninn aftur upp í vetur.

,,Strákarnir Skímó, bestu hljómsveit Íslands, eru að reyna að semja lag fyrir mig. Það gæti verið að maður gefi út eitt lag með þeim á næstunni. Þeir vilja komast inn á norskan markað og það getur verið að maður taki lagið með þeim. Það er fínt að hjálpa þeim en hvort ég hafi gæðin í það verður að koma í ljós,“ sagði Viðar Örn glaðbeittur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner