Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 21. desember 2017 14:40
Brynjar Ingi Erluson
Hörður Björgvin: Mourinho kom inn í klefa og hrósaði okkur
Brynjar Ingi Erluson skrifar frá Bristol
Hörður í baráttu við Marcus Rashford.
Hörður í baráttu við Marcus Rashford.
Mynd: Getty Images
Ungur stuðningsmaður Bristol City.
Ungur stuðningsmaður Bristol City.
Mynd: Getty Images
Hörður leikur stórt hlutverk með íslenska landsliðinu.
Hörður leikur stórt hlutverk með íslenska landsliðinu.
Mynd: Anna Þonn
„Þetta er eitt það sturlaðasta sem ég hef upplifað á ferlinum. Absolute scenes eins og tjallinn myndi segja," sagði Hörður Björgvin Magnúson, leikmaður Bristol City, í samtali við Fótbolta.net eftir að liðið lagði Manchester United að velli í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins.

Íslenski varnarmaðurinn var í byrjunarliði Bristol City í gær en hann hefur byrjað alla leiki liðsins í deildabikarnum.

Bristol City var vel spilandi í leiknum og alls ekki lakari aðilinn en Joe Bryan kom liðinu yfir í byrjun síðari hálfleiks með frábæru vinstri fótar skoti áður en Zlatan Ibrahimovic skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu með marki úr aukaspyrnu. Það var svo ótrúlegt mark frá Korey Smith í uppbótartíma sem skaut liðinu í undanúrslit.

Þegar Mike Dean, dómari leiksins, flautaði leikinn af fór allt úr böndunum en rúmlega 2000 stuðningsmenn Bristol City brutu sér leið inn á völlinn og fögnuðu með leikmönnum. Hörður hefur aldrei orðið vitni að öðru eins.

Fáir mættu til vinnu í morgun
„Þetta var augnablik sem ég gleymi aldrei. Það hópuðust menn að mér þarna og mér sýndist á öllu að þeir voru með Facebook Live video í gangi og Snapchat story. Ég býst fastlega við því að fáir hafi mætt til vinnu í borginni í dag," sagði Hörður.

„Mér fannst við spila mjög vel í leiknum og hafa ágætis tök á þeim. Það fór kannski aðeins um mann þegar Pogba átti þetta stangarskot fyrir utan teig. Annars fannst mér við stjórna leiknum og hefðum getað skorað fleiri mörk ef eitthvað var."

„Ég bjóst ekki alveg við því að Mourinho myndi stilla upp svona sterku sóknarliði. Við gerðum alveg ráð fyrir að Zlatan og Martial myndu byrja með Mata mögulega í holunni en það kom svolítið á óvart að hann ætlaði ekki að taka neina sénsa."

„Það er alltaf gaman að kljást við þá bestu og sjá hvar maður stendur gegn þeim. Ég var samt mest svekktur með að skora ekki á Sergio Romero. Hita hann aðeins upp fyrir HM," sagði Hörður en Romero stendur í marki argentínska landsliðsins, fyrstu mótherja okkar á HM.

Getum strítt Manchester City
Bristol City hefur farið magnaða leið í deildabikarnum og unnið fjögur úrvalsdeildarlið í röð en liðið hefur unnið Watford, Crystal Palace, Stoke City og nú Manchester United.

„Það virðist hafa hentað okkur vel að spila gegn úrvalsdeildarliðunum. Þetta hefur verið mjög skemmtileg lífsreynsla og hún heldur bara áfram þegar við mætum Manchester City í undanúrslitum. Ég geri mér vel grein fyrir því að City er búið að vera í allt öðrum klassa en hin úrvalsdeildarliðin en Leicester stóð í þeim og ég er handviss um að við getum strítt þeim."

Hörður hefur fengið að spila meira síðustu tvo mánuði og er hann sáttur með að fá meiri spiltíma.

„Stjórinn hefur verið að gefa manni meiri leiktíma og maður er þakklátur fyrir það. Maður nýtir bara tækifærið og heldur ótrauður áfram. Auðvitað var maður ekki sáttur svona í byrjun tímabils en núna er maður að spila meira og þá er maður ánægður."

Eins og áður kom fram þá varð allt vitlaust í leikslok. Hörður gaf sér þó tíma og var ekkert að flýta sér inn í klefa eins og nokkrir aðrir leikmenn.

„Þetta er eitthvað sem maður hefur ekki séð áður og auðvitað var bara gaman að vera partur af þessu. Mourinho kom svo inn í klefa og hrósaði okkur fyrir frammistöðuna og óskaði okkur góðs gengis. Þannig það sem hann sagði í viðtölum eftir leik var held ég meira karakterinn hans sem stjóri frekar heldur en maðurinn sjálfur," sagði hann í lokin.

Hörður og félagar eiga leik gegn QPR á laugardaginn í Championship-deildinni en á annan í jólum er leikið gegn Reading. Þar mætast hann og Jón Daði Böðvarsson, liðsfélagi hans í íslenska landsliðinu. Hann vonast eftir því að Bristol City haldi góðu gengi áfram.

„Það verður gaman að mæta honum. Reading er með mjög öflugt lið og með frábæran stjóra, þannig ég býst við hörkuleik. Við viljum halda áfram að safna stigum og það er mikið sjálfstraust í liðinu, þannig við sættum okkur ekki við neitt annað en þrjú stig," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner