Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. janúar 2018 11:05
Magnús Már Einarsson
Birkir Már fer mögulega til Svíþjóðar eða Noregs á láni
Var með tilboð frá Englandi og Danmörku
Birkir gekk til liðs við Val í desember.
Birkir gekk til liðs við Val í desember.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson, bakvörður Vals og íslenska landsliðsins, heldur ennþá þeim möguleika opnum að fara á lán áður en Pepsi-deildin hefst í vor.

Þegar Birkir gekk í raðir Vals í desember var greint frá því að hann gæti mögulega farið á lán fram á vor til að vera í sem bestu leikformi fyrir HM í Rússlandi í sumar.

Birkir var með tilboð frá Englandi og Danmörku um að fara á lán núna í janúar en ekkert verður af þeim áætlunum. Þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður hans, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Birkir viðbeinsbrotnaði í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar með Hammarby í haust.

Bati hans hefur tekið örlítið lengri tíma en áætlað var og Birkir byrjar ekki að æfa fyrr en á bilinu 10-15. febrúar. Því fer hann ekki til Englands eða Danmerkur á láni.

Hann mun hins vegar hugsanlega fara til Svíþjóðar eða Noregs á lán enda er glugginn í þeim löndum opinn fram í apríl.

Valur hefur leik í Pepsi-deildinni 27. apríl en þá mætir liðið KR á heimavelli. Börkur Edvardsson, formaður Vals, ítrekaði við undirskrift Birkis að leikmaðurinn verði alltaf með Val í fyrsta leik tímabilsins, þó hann fari mögulega á lán í einhverja mánuði fyrst.
Athugasemdir
banner
banner
banner