Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. janúar 2018 12:37
Magnús Már Einarsson
Brynjar í samningaviðræðum við HB - Spenntur fyrir Færeyjum
Brynjar í leik með Leikni.
Brynjar í leik með Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Hlöðversson, miðjumaður Leiknis R, er í samningaviðræðum við HB í Færeyjum. Brynjar æfði með HB í síðustu viku og spilaði leik með liðinu en þjálfari þess er Heimir Guðjónsson.

„Mér gekk ágætlega. Ég æfði þarna og spilaði æfingaleik. Það snjóaði frekar mikið akkurat dagana sem ég var þarna og æfingaleikurinn var smá spes vegna þess en gekk samt bara ágætlega," sagði Brynjar við Fótbolta.net í dag.

Brynjar er samningslaus og getur því gengið frítt til liðs við HB ef samningar nást.

„Ég persónulega er mjög spenntur fyrir Færeyjar ævintýri. Það er margt sem heillar. Heimir er náttúrulega stór partur af því. Það segir ágætlega mikið um metnaðinn hjá HB að hafa nælt í hann. Maður finnur mjög mikið fyrir því að HB ætli sér stóra hluti á næsta tímabili enda stærsti klúbburinn í Færeyjum út frá sögulegu samhengi."

„Mér líst mjög vel á Færeyjar og Þórshöfn. Mjög fallegur og kósí staður. Fólkið er vingjarnlegt og hjálpsamt og stemningin í klúbbnum góð. Það er mikið af sjálfboðum í vinnu þar."

„Völlurinn er mjög flottur og aðstaðan öll til fyrirmyndar. Gæði leikmanna og hópurinn sem slíkur lofar góður miðað við það litla sem ég sá. Það sést að menn vilja sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það er mikið hungur hjá mönnum."


Brynjar er 28 ára gamall en hann var á síðasta tímabili fyrirliði hjá Leikni. Samtals hefur Brynjar skorað sjö mörk í 176 deildar og bikarleikjum með Leikni á ferli sínum.
Athugasemdir
banner
banner
banner