mán 22. janúar 2018 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Zidane: Vorum ekki betri en gegn Villarreal
Mynd: Getty Images
Real Madrid valtaði yfir Deportivo La Coruna er liðin mættust í gær. Adrian kom gestunum óvænt yfir við litla hrifningu heimamanna sem svöruðu þó heldur betur fyrir sig.

Nacho og Gareth Bale sneru stöðunni við fyrir leikhlé og opnuðust flóðgáttirnar í síðari hálfleik.

Bale bætti öðru marki við, Luka Modric komst á blað og Cristiano Ronaldo setti tvö áður en Nacho fullkomnaði 7-1 sigur.

„Þetta var mjög góður leikur fyrir okkur, við þurftum virkilega á þessu að halda. Þegar við lentum undir þá vöknuðu strákarnir til lífsins," sagði Zidane, sem hefur legið undir gagnrýni fyrir slakt gengi Real á tímabilinu.

Real tapaði á heimavelli í síðustu umferð þegar Villarreal kíkti í heimsókn. Fyrir það hafði Real gert jafntefli við Celta Vigo og tapað fyrir Barcelona á heimavelli.

„Frammistaðan fannst mér ekkert betri heldur en gegn Villarreal, nema að í þetta skiptið fór boltinn inn."

Karim Benzema hefur ekki átt gott tímabil og byrjaði hann á bekknum í gær. Þegar hann kom inn fyrir Borja Mayoral í síðari hálfleik var baulað á franska framherjann.

„Það getur haft alvarleg áhrif á sjálfstraust leikmanna þegar margir baula á þá. Við viljum að stuðningsmenn okkar styðji okkur gegnum súrt og sætt, við viljum fá góða orku frá áhorfendum."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner