Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 22. apríl 2014 10:15
Elvar Geir Magnússon
Gústi Gylfa: Hljótum að fá hæsta stuðulinn
Ágúst fékk flugferð eftir að hafa stýrt Fjölni upp.
Ágúst fékk flugferð eftir að hafa stýrt Fjölni upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst er á sínu þriðja tímabili sem aðalþjálfari Fjölnis.
Ágúst er á sínu þriðja tímabili sem aðalþjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst og aðstoðarmaður hans, Kristófer Skúli Sigurgeirsson.
Ágúst og aðstoðarmaður hans, Kristófer Skúli Sigurgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýliðum Fjölnis er spáð tólfta og neðsta sæti Pepsi-deildarinnar. Ágúst Gylfason, þjálfari liðsins, segir að þessi spá sé skiljanleg.

„Fyrirfram bjóst maður við því að liðinu yrði spáð ellefta eða tólfta sætinu. Það er alveg eðlilegt. Við erum ekkert að breyta þeirri hefð sem hefur verið undanfarin ár þar sem liðunum sem koma upp er spáð falli niður aftur," segir Ágúst.

„Það er bara spennandi fyrir okkur að takast á við þá áskorun að vera spáð þessu. Við ætlum okkur að gera góða hluti í sumar og tryggja okkur áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni á næsta ári. Það er fyrsta markmiðið."

Býst hann við því að hlutskipti liðsins verði að berjast fyrir lífi sínu í deildinni?

„Okkar hlutskipti verður að berjast fyrir lífi okkar í hverjum leik. Við reynum að fá eitthvað út úr hverjum leik en við verðum bara að halda okkar gír áfram eins og við gerðum í fyrra. Ég hef jákvæða trú á því að ef við höldum uppteknum hætti og höldum áfram eins og við enduðum í fyrra þá munum við verða í ágætis málum."

„Við höfum ákveðið að halda okkar styrk frá því í fyrra og bæta ekki of miklu við. Við höfum fengið fjóra leikmenn en ætlum að byggja ofan á það sem við vorum að gera síðasta sumar. Það er ástæða fyrir því að við fórum upp og verður spennandi að sjá hvernig úrvalsdeildarliðin munu takast á við okkur," segir Ágúst.

Fjölnir vann 1. deildina í fyrra þrátt fyrir að hafa ekki byrjað tímabilið vel.

„Við vorum mjög taktískir í fyrra. Við byrjuðum á því að fá á okkur tólf mörk í fyrstu fimm leikjunum en í síðustu sautján leikjunum fengum við líka á okkur tólf mörk. Liðið í heild steig upp og fór að spila betri varnarleik. Ef við náum þessum styrk í úrvalsdeildinni erum við flottir því allir í liðinu kunna að spila sóknarleik og við komum alltaf til með að skora mörk. Það mun mæða mikið á varnarhlutanum og markverði, það er ljóst."

Í Grafarvoginum eru menn mjög spenntir fyrir upphafi móts.

„Það er kominn smá fiðringur í magann. Ég er sáttur við hópinn og við erum tilbúnir. Hópurinn er nokkuð stór og er skipaður mönnum sem hafa verið lengi saman. Það gæti líka hjálpað til. Það hefur verið mikill stígandi í liðinu síðan í janúar," segir Ágúst en hvernig heldur hann að deildin muni spilast í heildina.

„Mér finnst fjögur lið vera töluvert sterkari en hin; það eru Breiðablik, FH, Stjarnan og KR. Hugsanlega bætist eitt lið við í toppbaráttuna en hin liðin verða í jafnri baráttu held ég."

Hvaða lið myndi hann setja pening á að standi uppi sem Íslandsmeistari?

„Eigum við ekki að segja Fjölnir? Við hljótum að fá hæsta stuðulinn. En það er samt ólöglegt fyrir mig að veðja svo ég myndi ekki setja á eitt né neitt," segir Ágúst kíminn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner