banner
   þri 22. apríl 2014 11:18
Magnús Már Einarsson
Ólafur Kristjáns: Eitthvað sem maður hefur látið sig dreyma um
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta er stórt tækifæri og góður klúbbur að koma til," sagði Ólafur Kristjánsson við Fótbolta.net í dag en hann hefur verið ráðinn þjálfari FC Nordsjælland í Danmörku.

,,Þeir höfðu samband við mig um miðjan apríl og þá vísaði ég þeim á Breiðablik. Þeir töluðu eitthvað saman og gáfu go á að athuga hvort það væri grundvöllur fyrir þessu. Þetta hefur rúllað síðan þá og var klárað fyrir helgi," segir Ólafur sem er að taka við liði sem varð danskur meistari 2012.

,,Ég hef fylgst með og þekki þennan klúbb ágætlega. Ég hef ágætis þekkingu á því sem er að gerast þarna."

Ólafur lék áður í Danmörku með AGF og hann segir það lengi hafa verið draum að komast að í þjálfun erlendis.

,,Ég held að þjálfarar hafi drauma, metnað og markmið eins og leikmenn. Þetta er eitthvað sem maður hefur látið sig dreyma um en stjórnar voðalega lítið. Maður verður að vinna eins vel og maður getur og sjá hvað býðst."

Ólafur mun stýra Blikum til 2. júní en þá tekur Guðmundur Benediktsson við liðinu."

,,Allt varðandi viðskilnaðinn við Breiðablik ætla ég að geyma þar til ég er búinn með síðasta leikinn hjá Breiðabliki. Núna fókusa ég á að deildin er að byrja og ég mun stýra sex deildarleikjum og einum bikarleik. Það er metnaðarmál fyrir mig að skila þessu eins vel og ég get og mér ber skylda að vinna eins vel og ég get þangað til að ég fer í nýtt verkefni og get fókusað á það."
Athugasemdir
banner