þri 22. apríl 2014 14:30
Magnús Már Einarsson
„Út í hött að meiðast í 15-0"
Aron Elís og Þrándur faðir hans.  Þrándur þjálfaði Aron á upphafsárum ferilsins.
Aron Elís og Þrándur faðir hans. Þrándur þjálfaði Aron á upphafsárum ferilsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,, Það var fínt að hafa pabba sem þjálfara en maður fann alveg fyrir því að hann gerði kröfur á mig.  Það hjálpaði mér fullt.“
,, Það var fínt að hafa pabba sem þjálfara en maður fann alveg fyrir því að hann gerði kröfur á mig. Það hjálpaði mér fullt.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég fann strax að það var eitthvað að ökklanum og á endanum var ég í tvo og hálfan mánuð að jafna mig. Óli Þórðar talaði um að það yrði ekkert mál að sprauta þetta fyrir lokaleikinn.  Hann fann sjálfur aldrei fyrir neinu þegar hann var að spila.  Hann spilaði bara fótbrotinn og eitthvað.
,,Ég fann strax að það var eitthvað að ökklanum og á endanum var ég í tvo og hálfan mánuð að jafna mig. Óli Þórðar talaði um að það yrði ekkert mál að sprauta þetta fyrir lokaleikinn. Hann fann sjálfur aldrei fyrir neinu þegar hann var að spila. Hann spilaði bara fótbrotinn og eitthvað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég hef aldrei verið jafn stressaður og í lokaleiknum.  Sérstaklega þegar við lentum 1-0 undir, þá skalf maður.  Ég og Sigurður Egill Lárusson sátum saman í stúkunni og við vorum að kúka í okkur þegar þeir skoruðu.  Ég trúði þessu ekki.
,,Ég hef aldrei verið jafn stressaður og í lokaleiknum. Sérstaklega þegar við lentum 1-0 undir, þá skalf maður. Ég og Sigurður Egill Lárusson sátum saman í stúkunni og við vorum að kúka í okkur þegar þeir skoruðu. Ég trúði þessu ekki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég íhugaði mína stöðu en á endanum fannst mér rétt skref að vera áfram í Víkingi.  Það voru lið í Pepsi-deildinni sem höfðu áhuga á að fá mig en það er spennandi að takast á við þetta verkefni með félögunum sem maður var með á síðasta ári.
,,Ég íhugaði mína stöðu en á endanum fannst mér rétt skref að vera áfram í Víkingi. Það voru lið í Pepsi-deildinni sem höfðu áhuga á að fá mig en það er spennandi að takast á við þetta verkefni með félögunum sem maður var með á síðasta ári.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nafn: Aron Elís Þrándarson
Aldur: 19 ára
Staða: Sóknarmaður
Twitter: https://twitter.com/aronthrandar

,,Ég var ekkert alltof vinsæll hjá þeim sem ég var að æfa með þegar ég var yngri. Það var ekkert gaman að vera með mér í liði. Ég skoraði í bæði mörkin, skoraði fullt af sjálfsmörkum en síðan fór maður að læra á þetta,“ segir Aron Elís Þrándarson leikmaður Víkings R. um upphafsskref sín í fótboltanum.

Aron Elís sló í gegn þegar Víkingar fóru upp úr 1. deildinni í fyrra en hann var valinn bestur og efnilegastur auk þess að vera markahæstur í deildinni.

Aron byrjaði snemma að sparka í bolta en hann var byrjaður að mæta þriggja ára á æfingar hjá 7. flokki þar sem leikmenn eru yfirleitt 7 og 8 ára. Þrándur Sigurðsson, faðir Arons, var á árum áður fyrirliði Víkings en hann spilaði einnig með Sindra og ÍA á ferli sínum. Þrándur þjálfaði Aron son sinn lengi í yngri flokkum Víkings.

,,Hann þjálfaði mig alveg upp í 4. flokk, þá tók annar við. Það var fínt að hafa pabba sem þjálfara en maður fann alveg fyrir því að hann gerði kröfur á mig. Það hjálpaði mér fullt.“

Fær gagnrýni frá pabba
Þrándur var á sínum tíma varnarjaxl en hann hlaut meðal annars viðurnefnin ,,tarfurinn“ og ,,drekinn“. Aron Elís er þó minna þekktur fyrir mikla varnartilburði.

,,Við erum allt öðruvísi sem leikmenn. Hann var varnatröll á meðan ég er sóknarmaður. Ég held að hann hafi verið ánægður með að hafa mig í sókninni. Það gekk alltaf vel í yngri flokkunum hjá okkur,“ segir Aron en faðirinn er duglegur að gagnrýna soninn.

,,Hann kemur með komment inn á milli. Maður á að geta tekið gagnrýni og maður græðir bara á því. Ég fæ oft gagnrýni frá honum eftir leiki. Hann lætur mig alveg vita ef hann telur að ég geti gert eitthvað betur.“

Eftir gott gengi í yngri flokkunum steig Aron Elís sín fyrstu skref með meistaraflokki sumarið 2011 þegar Víkingur féll úr Pepsi-deildinni. Aron og jafnaldri hans Viktor Jónsson vöktu þá athygli fyrir góða frammistöðu undir lok móts.

,,Það var gaman og góð reynsla. Það var gaman að vera lítill kjúklingur og spila í Pepsi-deildinni með bestu gaurunum á Íslandi en það var erfitt líka. Við féllum og maður fann fyrir því hvað það var allt öðruvísi að vera í Pepsi-deildinni miðað við að vera í bolta með jafnöldrum sínum.“

Meiddist í stöðunni 15-0
Í fyrra náðu Víkingar að endurheimta sæti sitt í Pepsi-deildinni eftir æsilegan lokasprett í 1. deildinni. Þar spilaði 16-0 sigur á botnliði Völsungs í næstsíðustu mferðinni stórt hlutverk en Víkingar fóru á endanum upp á hagstæðari markatölu en Haukar og Grindavík. Aron segir að Víkingar hafi sett allt kapp á sóknarleikinn gegn Húsvíkingum.

,,Fyrir leikinn ætluðum við í fyrsta lagi að vinna. Við settum hápressu og ætluðum að keyra á þá. Við komumst mjög snemma í 4-0 og þá héldum við áfram að keyra á þá. Það var svo mikið undir að við þurftum að gera það. Þetta var ekkert svakalega skemmtilegt fyrir önnur lið í deildinni en við komumst upp og erum sáttir í dag.“

Aron Elís skoraði fjögur mörk í þessum ótrúlega leik en hann kom Víkingi í 15-0 á 81. mínútu. Skömmu síðar varð Aron fyrir tæklingu sem kom í veg fyrir að hann yrði með í lokaumferðinni gegn Þrótti viku síðar.

,,Þetta var alveg út í hött. Ég var með boltann og gaf hann og þá kom hann alltof seint í mig. Ég fann strax að það var eitthvað að ökklanum og á endanum var ég í tvo og hálfan mánuð að jafna mig. Óli Þórðar talaði um að það yrði ekkert mál að sprauta þetta fyrir lokaleikinn. Hann fann sjálfur aldrei fyrir neinu þegar hann var að spila. Hann spilaði bara fótbrotinn og eitthvað. Það var umræða um að láta sprauta þetta en það þótti vera of mikil áhætta.“

,,Vorum að kúka í okkur í stúkunni“
Ljóst var fyrir lokaumferðina að Víkingur myndi fara upp með sigri á Þrótti, svo framarlega sem Haukar myndu ekki vinna Völsung jafn stórt og Fossvogspiltar höfðu gert.

,,Ég hef aldrei verið jafn stressaður og í lokaleiknum. Sérstaklega þegar við lentum 1-0 undir, þá skalf maður. Ég og Sigurður Egill Lárusson sátum saman í stúkunni og við vorum að kúka í okkur þegar þeir skoruðu. Ég trúði þessu ekki. Þróttarar voru búnir að bjarga sér og höfðu að engu að keppa og ég trúði ekki að við værum að klúðra þessu í þessum leik,“ segir Aron þegar hann rifjar leikinn á Valbjarnarvelli upp en Þróttarar komust þar í 1-0.

,,Sem betur fer náði Pape síðan að skora tvö mikilvæg mörk. Ég man ekki hvernig ég fagnaði en ég sá formanninn hlaupa um stúkuna og það var þvílík sigurvíma eftir leikinn.“

Íhugaði að fara í annað félag í Pepsi-deildinni
Aron stundar nám við Verzlunarskóla Íslands og stefnir á útskrift í vor. Góð frammistaða Arons síðastliðið sumar fór ekki framhjá erlendum félögum sem hafa sýnt áhuga. Danska félagið AGF vildi meðal annars fá Aron á reynslu síðastliðið haust en ökklameiðslin komu í veg fyrir það.

,,Ég stefni á að fara út, það er klárt mál. Það eru einhver félög sem hafa sýnt áhuga en ég er lítið að pæla í því. Þetta kemur á endanum ef ég stend mig vel,“ segir Aron rólegur um atvinnumannadrauminn.

Aron íhugaði þó að yfirgefa herbúðir Víkings í haust og ganga til liðs við annað félag á Íslandi.

,,Ég íhugaði mína stöðu en á endanum fannst mér rétt skref að vera áfram í Víkingi. Það voru lið í Pepsi-deildinni sem höfðu áhuga á að fá mig en það er spennandi að takast á við þetta verkefni með félögunum sem maður var með á síðasta ári. Það hefði verið stór ákvörðun að fara í annan klúbb og ég hugsaði mikið um þetta. Ég held að þetta að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá mér.“

Víkingum er spáð falli úr Pepsi-deildinni í sumar en í lok árs 2010 kynnti félagið metnaðarfull markmið um að liðið yrði Íslandsmeistari árið 2014. ,,Ég held að það viti allir markmiðin hjá okkur,“ sagði Aron hlæjandi um markmiðin sem voru kynnt árið 2010.

,,Við eigum eftir að setjast niður og setja okkur markmið. Númer 1, 2 og 3 er að festa klúbbinn í efstu deild. Ég held að það sé frekar mikil bjartsýni að ætla sér Íslandsmeistaratitilinn strax en það kemur vonandi síðar.“
Athugasemdir
banner
banner