fim 22. júní 2017 17:30
Magnús Már Einarsson
Patrick Pedersen: Hlakka til að spila fótbolta aftur
Patrick fagnar marki með Val árið 2015.
Patrick fagnar marki með Val árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég kunni vel við mig síðast þegar ég var á Íslandi. Ég hlakka til að spila fótbolta aftur eftir að hafa verið mikið á bekknum hjá Viking," sagði danski framherjinn Patrick Pedersen þegar Fótbolti.net heyrði í honum hljóðið í dag.

Patrick er kominn til Vals á nýjan leik eftir dvöl hjá Viking í Noregi. Patrick raðaði inn mörkum með Val frá 2013 til 2015 en síðasta árið vann hann gullskóinn í Pepsi-deildinni. Viking keypti Patrick í kjölfarið en hann hefur lítið spilað í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ég spilaði mikið á síðasta tímabili en á þessu tímabili hef ég ekki spilað svo mikið. Ég var meiddur og missti af 3-4 leikjum. Eftir það hef ég verið mikið á bekknum. Það hefur verið svolítið pirrandi að fá ekki að spila svo ég er ánægður með að ganga til liðs við Val."

Valsmenn eru á toppnum í Pepsi-deildinni en Patrick hefur fylgst vel með liðinu undanfarin ár.

„Síðan ég fór þá hef ég fylgst vel með Val. Það hefur verið frábært að sjá gengi liðsins í deildinni. Ég hlakka til að spila með Val á ný og vonandi getum við barist um titilinn í ár. Það eru mörg góð lið á Íslandi og þetta verður erfitt. Við þurfum að standa okkur í hverjum einasta leik og þetta verður mikil barátta," sagði Patrick.

Ekki liggur ennþá fyrir hvenær Patrick kemur til Íslands en hann fær leikheimild með Val þann 15. júlí.

„Ég er í góðu formi. Við æfum vel hér í Viking og mér líður ágætlega. Ég hef hins vegar ekki spilað í þónokkurn tíma og vantar upp á leikæfingu. Ég get vonandi fengið hana fljótlega," sagði Patrick að lokum.

Sjá einnig:
Bjössi Hreiðars: Eins og að fá mann til baka úr fríi
Hvernig fer Man City - Arsenal á sunnudag?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner