Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 22. júní 2018 18:33
Gunnar Logi Gylfason
Jón Daði: Við þurfum að eiga besta leik lífs okkar
Icelandair
Jón Daði Böðvarsson í baráttunni í leiknum í dag
Jón Daði Böðvarsson í baráttunni í leiknum í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta eru vonbrigði, það er ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi. Við höfðum tækifæri til að koma okkur áfram og við klúðrum því," sagði Jón Daði Böðvarsson eftir leik Íslands og Nígeríu.

„Það er mikilvægt að gleyma þessu núna og einblína á næsta leik, stutt á milli leikja og þetta fór eins og það fór."

Ísland er ekki með örlögin í sínum eigin höndum eftir þessi úrslit og Jóni Daða finnst það að sjálfsögðu slæmt.

„Jú að sjálfsögðu, við hefðum getað komið okkur í kjörstöðu, en við verðum bara að ná sigri gegn Króatíu. Það verður erfitt en við verðum að gera það."

Íslenska liðið lék mjög vel í fyrri hálfleik sem sýndi sig meðal annars í því að Ísland átti sex skot í fyrri hálfleik en Nígeríumenn ekkert.

„Við töluðum einmitt um það að halda áfram að vera á pedalanum eftir þennan fyrri hálfleik og ef allt hefði gengið upp hefðum við átt að vera yfir í þessum leik."

„Síðan kemur þetta eftir innkast frá okkur, þeir fá skyndisókn og við erum alltof opnir finnst mér og þeir refsa og þá er þetta svolítið erfiðara. Síðan skora þeir þetta annað mark og þá er þetta virkilega brött brekka."


Í næsta leik, síðasta leik liðsins í riðlakeppninni, leikur Ísland gegn Króatíu.

„Ég er bara spenntur. Ég hugsa að það verði flottur leikur og erfiður. Við vitum hvernig Króatarnir eru, heimsklassa lið. Við sáum hvernig þeir fóru með Argentínu í síðasta leik. Við þurfum, allir ellefu leikmennirnir á vellinum, að eiga besta leik lífs okkar til að ná góðum úrslitum."

„Við þurfum bara að einblína á okkur sjálfa og vera með fulla einbeitingu á þennan leik."

Jón Daði kom inn í byrjunarliðið í dag eftir að hafa setið á bekknum allan leikinn gegn Argentínu.

„Persónulega fannst mér ég skila mínu bara nokkuð vel. Mér leið vel inn á vellinum, fannst ég vera ferskur og skilaði boltanum vel frá mér. Fínt að vera með Alfreð upp á topp. Á öðrum degi hefði þetta kannski dottið betur fyrir okkur en aðallega bara flott að fá mínútur og ég fer persónulega nokkuð sáttur frá þessum leik," sagði Jón Daði Böðvarsson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner