fös 22. júní 2018 18:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kári Árna: Það bítur okkur í rassagtið
Icelandair
Kári í leiknum í dag.
Kári í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðvörðurinn sterki Kári Árnason var hundfúll eftir 2-0 tap gegn Nígeríu í Volgograd í dag.

Úrslitin þýða að Ísland er í erfiðri stöðu fyrir lokaumferðina í riðlakeppninni, með eitt stig eftir tvo leiki.

Sjá einnig:
Það þarf mikið að detta með okkur í lokaumferðinni

„Það er alltaf súrt að tapa, engu að síður vinnum við saman og töpum saman. Við vorum ekki nægilega góðir í seinni hálfleik, við vorum algjörlega með þá í fyrri hálfleiknum. Þeir eiga ekkert skot á markið og við lokuðum á allt," sagði Kári við íslenska fjölmiðlamenn að leik loknum.

„Við fáum á okkur mark snemma í seinni hálfleik eftir fast leikatriði hjá okkur, það var klaufalegt. Við eigum ekki að fá á okkur skyndisókn eftir fast leikatriði hjá okkur. Markið slær engan út af laginu, það riðlar frekar leikskipulaginu, okkur finnst við þurfa að sækja og svo framvegis. Það var nóg eftir og ef við hefðum haldið áfram eins og við vorum að spila í fyrri hálfleik vinnum við, eða jöfnum allavega þennan leik. Við nýttum ekki færin í fyrri hálfleik og það bítur okkur í rassgatið."

Gylfi Þór Sigurðsson klúðraði vítaspyrnu, skaut yfir, á 83. mínútu. Hefði Ísland átt möguleika á að jafna á síðustu mínútunum ef hann hefði skorað úr spyrnunni?

„Að sjálfsgöðu. Þetta er bara einn af þessum hlutum, þetta féll ekki með okkur í dag. Við hefðum getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik en þetta féll ekki."

Óþarfi að mála skrattann á vegginn
Föst leikatriði hafa ekki verið að gefa íslenska liðinu sérstaklega mikið á mótinu hingað til.

„Við vorum hættulegir í hornum en seinni boltinn datt ekki fyrir okkur. Þeir voru góðir í að verjast föstu leikatriðunum okkar og það var erfitt að rífa sig lausan. Löngu innköstin virkuðu ekki."

„Það þarf ekki að mála skrattann á vegginn. Það var margt gott í þessu. En fyrsta markið átti aldrei að gerast og það riðlaði skipulaginu okkar. Það var dýrkeypt," sagði Kári að lokum.

Næsti leikur, síðasti leikurinn í riðlakeppninni, er við Króatíu á þriðjudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner