fös 22. júní 2018 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Markvörður Nígeríu bætti met sem var í eigu Norður-Kóreu
Icelandair
Mynd: Getty Images
Hinn 19 ára gamli Francis Uzoho hélt hreinu þegar Nígería gerði jafntefli við Ísland.

Uzoho er aðalmarkvörður Nígeríu á HM í Rússlandi. Uzoho fékk sénsinn þar sem þeir markverðir sem varið hafa mark Nígeríu undanfarin ár eru fjarri góðu gamni.

Carl Ikeme, markvörður Wolves og markvörður nígeríska liðsins undanfarin ár, er að glíma við hvítblæði en leikmenn íslenska landsliðsins sendu honum góðar kveðjur á dögunum.

Vincent Enyeama, sem er leikjahæsti leikmaður Nígeríu í sögunni með 101 landsleik, íhugaði að koma aftur í landsliðið eftir að Ikeme veiktist í fyrra. Enyeama hætti að spila með landsliði Nígeríu árið 2015, en hinn 35 ára gamli Enyeama er hins vegar félagslaus og hefur verið að glíma við meiðsli. Því varð ekkert að endurkomu hans.

Því kom það í hlut Uzoho að vera aðalmarkvörður á HM. Uzoho er fæddur í október 1998 en hann hóf fótboltaferil sinn í akademíu í Katar. Í október í fyrra varð hann yngsti erlendi markvörðurinn í sögunni til að spila í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, þegar hann lék með Deportivo La Coruna gegn Eibar, þá 17 ára.

Uzoho setti annað met í dag því hann varð næst yngsti markvörðurinn í sögu HM til að halda hreinu. Hann er aðeins 39 dögum eldri en Li Chan-Myong, frá Norður-Kóreu, þegar sá kappi hélt hreinu gegn Ítalíu á HM 1966.

Gylfi Þór Sigurðsson komst næst því að skora fram hjá stráknum, en Gylfi klikkaði á vítapunktinum á 83. mínútu.

Uzoho spilaði tvo leiki með Deportivo í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann lék aðallega með B-liði félagsins í spænsku C-deildinni í vetur.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner