Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 22. júní 2018 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pape ræðir um Færeyjar: Hugmyndir þeirra heilluðu mig
Pape vildi prófa eitthvað nýtt.
Pape vildi prófa eitthvað nýtt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pape kom hingað til lands 2003. Hér á landi hefur hann leikið með Fylki, Leikni R., Grindavík , BÍ/Bolungarvík, Víkingi R. og Víkingi Ólafsvík.
Pape kom hingað til lands 2003. Hér á landi hefur hann leikið með Fylki, Leikni R., Grindavík , BÍ/Bolungarvík, Víkingi R. og Víkingi Ólafsvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Pape Mamadou Faye er búinn að semja í Færeyjum, við úrvalsdeildarlið þar í landi. Liðið sem Pape er búinn að semja við heitir TB/FCS/Royn, liðið er í neðri hlutanum í 10 liða deild. Pape skrifaði undir samning út þetta leiktímabil og segist hann mjög spenntur fyrir því sem framundan er.

Undirritaður heyrði í Pape í gær og fékk þar staðfest að hann væri búinn að semja í Færeyjum.

„Planið hjá mér síðan á síðasta tímabili hefur verið að prófa eitthvað nýtt," segir Pape sem er 27 ára. Hann lék fimm leiki fyrir Víking Ó. í sumar, þann síðasta á miðvikudagskvöld í 2-0 sigri á Þór.

„Ég samdi við Íslending sem er búsettur í útlöndum að vinna með danskri umboðsskrifstofu sem vann að þessu fyrir mig."

Ekki fyrsta tilboðið frá Færeyjum
Tilboðið frá TB/FCS/Royn var ekki það fyrsta sem Pape fær frá Færeyjum en fyrsta tilboðið sem heillar hann.

„Þetta er ekki fyrsta boðið sem ég fæ frá Færeyjum, ég fékk líka eitt í vetur en það heillaði ekki mikið. Ég fékk gott tilboð frá þessu liði og þeir buðu mér að koma í heimsókn sem ég svo geri um síðastliðna helgi. Ég fór þangað og mætti á æfingu hjá þeim. Ég fundaði eftir það með þjálfaranum og formanninum, við áttum góðan fund. Hugmyndir þeirra heilluðu mig."

TB/FCS/Royn er tiltölulega nýtt félag og reyndi í fyrra að fá Atla Eðvaldsson til að taka við. Það gekk ekki alveg upp en þjálfari liðsins í dag er Svíinn Glenn Stahl. Hann er með reynslu úr sænsku neðri deildunum en Pape var mjög hrifinn af því sem hann hafði að segja.

„Þetta er sænskur þjálfari og hann er gríðarlega góður. Eftir að hafa sest niður með honum kom ekkert annað til greina en að semja, hugmyndir hans heilluðu mig svo mikið."

„Þetta er eins og Ísland, bara aðeins minna," segir Pape sem samdi út leiktíðina í Færeyjum. „Þetta verður spennandi, ég er spenntur fyrir þessu ævintýri."

Brynjar hjálpaði með ákvörðunina
Í Færeyjum er annað Íslendingalið. Topplið HB. Þar þjálfar Heimir Guðjónsson og með liðinu spila Brynjar Hlöðversson og Grétar Snær Gunnarsson.

TB/FCS/Royn spilar við HB á laugardag og spurning er hvort Pape nái eitthvað að koma við sögu þar.

Hann segir að Brynjar Hlöðversson, fyrrum liðsfélagi í Leikni í Breiðholti, hafi átt þátt í ákvörðun sinni að fara til Færeyja.

„Við spiluðum báðir í Leikni og höfum haldið góðu sambandi þó ég hafi ekki verið í Leikni síðustu ár. Það er gott að hafa mann sem maður þekkir. Ég heimsótti hann á meðan ég var í Færeyjum, hann talaði jákvætt um færeysku deildina og Færeyinga."

„Hann hjálpaði með ákvörðunina," sagði Pape að lokum.
Athugasemdir
banner
banner