banner
   fös 22. júní 2018 19:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var farið að hægjast á Aroni - Vonandi 100% í næsta leik
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er ekki í besta möguleikanum á að komast áfram í 16-liða úrslit Heimsmeistaramótsins eftir tap gegn Nígeríu í steikjandi hita í Volgograd á þessum föstudegi.

Þannig að það eina sem Ísland getur gert er að vinna Króatíu í lokaumferð riðilsins og treysta á að Nígería vinni ekki Argentínu og að ef Argentína vinnur, að það verði ekki of stór sigur. Ef leikur Nígeríu og Argentínu endar í jafntefli þá verður Ísland að vinna að minnsta kosti með tveggja marka mun gegn Króatíu. Ljóst að þessi lokaumferð verður spennandi.

„Við viljum hafa þetta í okkar höndum. Við þurfum að fara erfiða leiðina og við verðum að vona að það gangi eftir. Við þurfum að halda áfram að gefa allt í söluna, það sem við erum vanir að gera," sagði Aron Einar, landsliðsfyrirliði, eftir leikinn áðan.

Aron virtist vera alveg búinn á því þegar ekki mikið var búið af seinni hálfleiknum. Hann kom af velli á 87. mínútu. Aron glímdi við erfið meiðsli fyrir mót.

„Ég er allt í lagi," sagði Aron eftir að hafa spilað 87 mínútur. „Það var farið að hægjast aðeins á manni þegar leið á leikinn, eins og gengur og gerist en mér leið ágætlega þegar ég fékk boltann, sem var ekkert of oft. Núna er það næsti leikur og nú fer ég í það að koma mér í gang og verð vonandi 100% klár fyrir þann leik."

„Ég fann að það var farið að hægjast á mér sem er kannski eðlilegt miðað við allt. Ég vil aldrei fara út af en Heimir hefur greinilega séð það á mér og hefur viljað fá meiri sóknarskiptingu. Við fengum einhver færi eftir þessa skiptingu, við munum halda áfram."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner