þri 22. júlí 2014 13:00
Magnús Már Einarsson
Gary Martin: Var eins og Atli Sigurjóns eftir ljósatíma
Gary Martin í viðtölum í Skotlandi í gær.
Gary Martin í viðtölum í Skotlandi í gær.
Mynd: Twitter
,,Þetta verður erfitt eftir útivallarmarkið sem við fengum á okkur," sagði Gary Martin við Fótbolta.net í dag um leik KR gegn Celtic í Meistaradeildinni í kvöld.

Skotarnir unnu fyrir leikinn á Íslandi 1-0 og því má búast við erfiðum leik ytra í kvöld.

,,Við vitum að við verðum að skora til að eiga möguleika og við munum reyna það. Við sýndum góðan liðsanda í fyrri leiknum og í leiknum gegn Val um helgina og við getum staðið okkur vel fyrir íslenska boltann."

,,Ég býst við að þeir verði meira með boltann og það er eðlilegt. Við höfum leikplan en þeir munu stjórna leiknum. Við munum reyna okkar besta til að skapa usla en þetta verður erfitt. Við þurfum að leggja hart að okkur en ef við stöndum saman getum við kannski komið á óvart."


Gary segist ekki í vafa um að þetta sé stærsti leikurinn á ferlinum hingað til.

,,Já, það verður ekki mikið stærra en að mæta Celtic í Meistaradeildinni. Það er stórkostlegt að vera hluti af þessu og eina af ástæðunum fyrir því að ég gekk til liðs við KR fyrir tveimur árum er að ég vil spila í Evrópukeppni. Þetta er eitthvað sem ég mun muna eftir alla ævi."

Fjömiðlar á Bretlandi hafa rætt mikið við Gary í tengslum við leikinn og í gær biðu sjónvarpsmenn eftir honum á flugvellinum í GLasgow.

,,Ég fór í nokkur viðtöl hjá dagblöðum og Sky Sports fyrir fyrri leikinn en þegar við mættum á flugvöllinn í gær var sjónvarpið að taka upp og áður en þú vissir af voru 6 eða 7 myndavélar í andlitinu á mér. Ég varð alveg eins og Atli Sigurjóns er þegar hann er búinn að vera í ljósum í 20 mínútur í Sport Sól," sagði Gary léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner