banner
   lau 22. júlí 2017 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Giggs: Leikmenn eins og Gylfi vekja alltaf áhuga
Mynd: Getty Images
Óljóst er hvar Gylfi Þór Sigurðsson mun spila þegar enska úrvalsdeildin hefst í næsta mánuði. Everton og Leicester hafa reynt að fá Gylfa í sumar en án árangurs.

Swansea hefur hafnað 40 milljóna punda tilboði frá báðum félögum í sumar, en Swansea vill fá nær 50 milljónum punda fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Manchester United goðsögnin Ryan Giggs hefur nú tjáð sig um stöðu Gylfa. Hann telur að Gylfi geti klárlega spilað með Wayne Rooney, sem gekk í raðir Everton á dögunum.

„Í fyrsta lagi þá finnst mér það frábært hjá Everton að fá Wayne," sagði Giggs við Wales Online. „Hann hefur enn mikið að bjóða og mun hafa góð áhrif á yngri leikmenn Everton."

„Hvað varðar Gylfa, þá held ég að þeir gætu klárlega spilað saman, hann og Wayne, ef Gylfi fer til Everton. Góðir leikmenn elska að spila með öðrum góðum leikmönnum," sagði Giggs.

„Gylfi hefur verið gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir Swansea. Það er hægt að halda því fram að þeir hefðu ekki haldið sér uppi á síðasta tímabili ef það væri ekki fyrir Gylfa."

„Gylfi er frábær í föstum leikatriðum, hann er hættulegur fyrir framan markið og er mjög vinnusamur. Leikmenn eins og hann vekja alltaf áhuga, sama fyrir hvern þeir spila."
Athugasemdir
banner
banner