þri 22. ágúst 2017 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfarinn spurði hvort fjölskyldan væri með ebólu
Eniola Aluko.
Eniola Aluko.
Mynd: Getty Images
Mark Sampson, landsliðsþjálfari Englands.
Mark Sampson, landsliðsþjálfari Englands.
Mynd: Getty Images
Mál Eniola Aluko í Englandi hefur vakið mikla athygli. Aluko, sem á 102 landsleiki fyrir enska landsliðið, ásakaði landsliðsþjálfarann, Mark Sampson, í maí á síðasta ári um kynþáttafordóma, en hún hefur ekki verið valin í enska landsliðshópinn síðan þá.

Sampson hefur verið rannsakaður tvisvar vegna þessara ásakana, en í bæði skiptin hefur hann verið hreinsaður af sök.

Kick It Out, hópur sem berst gegn kynþáttafordómum, hvetur enska knattspyrnusambandið til að rannsaka málið frekar eftir ítarlegt viðtal sem Aluko gaf BBC í gær.

Í viðtalinu segir Aluko m.a. frá ótrúlegri sögu. Þar sagði hún frá ummælum sem Sampson lét falla um fjölskyldu hennar.

„Sampson kom upp að mér og hann spurði mig hvaða fjölskyldumeðlimir væru að koma," sagði Aluko, en þetta tiltekna atvik gerðist fyrir leik gegn Þýskalandi á Wembley. Aluko átti þá von á nokkrum ættingjum í heimsókn, en hún er ættuð frá Nígeríu.

„Ég sagði við hann: 'Fjölskyldan er að koma frá Nígeríu.' Þá sagði hann: 'Passaðu að þau komi ekki með ebólu.' Ég hló vegna þess að ég var í sjokki. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja."

„Ég hef oft tekið þátt í þessu hefðbundna gríni inn í búningsklefanum, svona eins og gengur og gerist, en þetta var um fjölskyldu mína. Hann hefði líka getað sagt þetta við hvern sem er. Ég tel að hann hafi sagt þetta við mig vegna þess að ég er ættuð frá Afríku."

Viðtalið má lesa í heild sinni með því að smella hér

Sampson er líklega sigursælasti landsliðsþjálfari í sögu enska kvennalandsliðsins, en þetta er gríðarlega alvarlegt mál.

Aluko vill meina að fyrri rannsóknir hafi verið gallaðar og Kick It Out, sem er virtur hópur í Bretlandi, stendur með henni. Nú er spurning hvað gerist í framhaldinu, hvort Sampson verði rannsakaður aftur. Þetta viðtal sem Aluko fór í er grundvöllur til þess.
Athugasemdir
banner
banner