mið 22. október 2014 16:28
Magnús Már Einarsson
Formaður Fram reiknar ekki með að fleiri fari
Sex leikmenn farnir
Sverrir Einarsson.
Sverrir Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnþór Ari og Viktor Bjarki eru báðir farnir frá Fram.
Arnþór Ari og Viktor Bjarki eru báðir farnir frá Fram.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Sverrir Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, sér ekki fram á að fleiri leikmenn muni segja upp samningi sínum við félagið.

Kantmaðurinn ungi Aron Þórður Albertsson hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við félagið en áður höfðu Arnþór Ari Atlason, Guðmundur Magnússon, Hafsteinn Briem, Jóhannes Karl Guðjónsson og Viktor Bjarki Arnarsson gert slíkt hið sama. Sverrir segir að fleiri leikmenn séu ekki með uppsagnarákvæði í samningum sínum.

,,Ég held að það sé rétt hjá mér að það séu ekki fleiri með glugga," sagði Sverrir við Fótbolta.net í dag.

,,Þjálfarinn þarf að skoða hvað hann vill halda. Hann verður að leggja línurnar í því. Ég er að vona að það komi mynd á þetta núna hjá okkur," sagði Sverrir.

Ekki allir ódýrir
Sverrir segist ekki hafa áhyggjur þó sex leikmenn séu horfnir á braut. ,,Nei nei. Við þurftum líka að segja upp ákveðnum samningum. Það eru ekki allir ódýrir af þeim. Þeir kosta sitt sumir af þessum strákum og menn geta getið í eyðurnar þar. Við höfum ekki bolmagn til að standa í því í 1. deildinni."

,,Okkur hefur gengið rosalega vel að gera upp við alla og það er allt í fínum farvegi með það. Við ætlum að halda þeirri línu áfram. Við erum með fullt af góðum strákum og við erum að fá efnilega stráka upp. Við erum í fínum málum."


Fyrir ári síðan var Bjarni Guðjónsson ráðinn þjálfari Fram og félagið sópaði að sér ungum leikmönnum. Lítið gekk hjá Fram og liðið féll niður í 1. deildina. Sverirr segir að ennþá sé horft til framtíðar með verkefnið hjá Fram.

,,Við ætlum ekki að kvika frá því. Við skulum koma upp með ungt og efnilegt lið. Við ætlum ekki að skorast undan þvi," sagði Sverrir ákveðinn.

Vilja spila í Grafarholti
Denis Cardaklija tók fram hanskana á miðju sumri og hjálpaði Fram í markmannsvandræðum eftir að Ögmundur Kristinsson fór til Randers í Danmörku. Ekki er ljóst hvort Denis muni halda áfram í boltanum.

,,Það hefur ekkert verið rætt með það mál. Þjálfarinn (Kristinn Rúnar Jónsson) kom í gær og hann verður að ræða það. Við þurfum að skoða það mál," sagði Sverrir.

Framarar hafa áhuga á að spila heimaleiki sína í Grafarholti næsta sumar en ekki á Laugardalsvelli. ,,Við ætlum að fara yfir það með KSÍ, hvað þarf að gera og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að það gangi. Við ætlum að reyna að vera þar og búa til heimavöll."
Athugasemdir
banner
banner
banner