sun 22. október 2017 21:25
Ívan Guðjón Baldursson
Frakkland: Neymar skoraði og fékk rautt í jafntefli
Mynd: Getty Images
Marseille 2 - 2 PSG
1-0 Luiz Gustavo ('16)
1-1 Neymar ('33)
2-1 Florian Thauvin ('78)
2-2 Edinson Cavani ('92)
Rautt spjald: Neymar ('87, PSG)

Dani Alves, Neymar og félagar í PSG virtust ansi kokhraustir fyrir leikinn gegn Marseille í dag.

PSG var með sex stiga forystu á toppi deildarinnar fyrir umferðina og sagðist Dani Alves til að mynda ekki geta nefnt neinn leikmann Marseille þegar hann var spurður fyrir leikinn.

Patrice Evra er eflaust hissa á þessum ummælum, þó ekki jafn mikið og Luiz Gustavo, sem hefur spilað með Alves í brasilíska landsliðinu undanfarin sex ár.

Leikurinn í kvöld var nokkuð jafn, PSG hélt boltanum betur en átti erfitt með að brjóta skipulagt lið Marseille á bak aftur.

Heimamenn komust yfir með marki frá Luiz Gustavo en Neymar jafnaði með sínu tíunda marki á tímabilinu. Florian Thauvin kom heimamönnum þá aftur yfir og virtist stefna í fyrsta tap PSG þegar Neymar fékk sitt annað gula spjald á 87. mínútu.

Edinson Cavani var þó áfram inná og kom sínum mönnum til bjargar með marki í uppbótartíma. PSG er núna með fjögurra stiga forystu, Marseille er í fimmta sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner