mið 22. nóvember 2017 15:00
Ingólfur Stefánsson
Heimild: DailyMail 
Danny Rose: Ég var brjálaður
Rose fékk ekki að spila gegn Arsenal.
Rose fékk ekki að spila gegn Arsenal.
Mynd: Getty Images
Rose í landsleik gegn Íslandi.
Rose í landsleik gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danny Rose, leikmaður Tottenham, segist hafa verið brjálaður yfir því að vera ekki valinn í leikmannahóp Tottenham fyrir nágrannaslaginn við Arsenal um liðna helgi. Rose segir þó að allt sé í góðu á milli hans og Mauricio Pochettino, þjálfara liðsins.

Walesverjinn Ben Davies spilaði í vinstri bakverði fyrir Tottenham í leiknum á meðan Rose þurfti að horfa á leikinn frá hliðarlínunni.

„Ég var brjálaður og reiður en á sama tíma skildi ég þessa ákvörðun," segir Rose sem sneri nýlega til baka úr erfiðum hnémeiðslum sem héldu honum frá leik í 10 mánuði.

„Það var ekkert rifrildi, þjálfarinn útskýrði fyrir mér að hann teldi að það væri betra að ég myndi nýta tímann í æfingar svo ég gerði það. Ég skil og virði ákvarðanir þjálfarans."

Rose var í byrjunarliðinu í 2-1 sigri Tottenham gegn Dortmund í Meistaradeildinn í gærkvöld. Hann var ekki sáttur með frammistöðu sína og óttaðist að vera tekinn af velli í hálfleik.

„Ég var hræðilegur og áttaði mig á því að kannski er ég ekki kominn jafn langt og ég hélt. Ég fann fyrir hnéinu í lokin á leiknum en það er ekkert alvarlegt."

Rose hefur fulla trú á hæfileikum sínum og segir að hann sé einn sá besti í deildinni sama hvaða standi hann sé í. „Það er nóg af leikjum næstu vikurnar og ég vona að ég fái að spila eins mikið og hægt er," sagði hann.

Rose hefur verið orðaður mikið við Manchester United og orðrómur hefur verið um að félagið muni leggja fram tilboð í leikmanninn í janúar-glugganum. Rose segist þó með fulla einbeitingu á að ná árangri með Tottenham.

„Ég og þjálfarinn viljum sömu hluti, við viljum vinna eitthvað. Ég er 100% með hugann við Tottenham og vill taka þátt í einhverju fallegu og árangursríku á þessu tímabili."
Athugasemdir
banner
banner
banner