mán 23. janúar 2017 14:30
Magnús Már Einarsson
Metfjöldi Íslendinga á leik í ensku úrvalsdeildinni?
Gylfi skoraði sigurmarkið fyrir framan um það bil 500 Íslendinga.
Gylfi skoraði sigurmarkið fyrir framan um það bil 500 Íslendinga.
Mynd: Getty Images
Íslendingar hafa í gegnum tíðina haft gríðarlegan áhuga á enska boltanum. Um hverja helgi fer fjöldi af Íslendingum til Englands til að horfa á leiki þar í landi.

Líklega hafa aldrei verið fleiri Íslendingar á einum og sama leiknum og þegar Liverpool mætti Swansea á Anfield á laugardaginn.

53 þúsund áhorfendur sáu leikinn á Anfield en gera má ráð fyrir að þar hafi verið á fimmta hundrað Íslendinga. Litlu munar því til að 1% af áhorfendum á leiknum hafi komið frá Íslandi.

Heimsferðir voru með 180 manna hópferð, 80 áhorfendur fóru á völlinn með Gaman ferðum og 60 með Vita. Kop.is var með hópferð í samvinnu við Úrval Útsýn og þar voru 72 Íslendingar á ferðinni.

Samtals gera þetta 392 Íslendinga en þá eru ekki taldir með margir Íslendingar sem fóru á leikinn á eigin vegum. Því voru á fimmta hundruð Íslendingar á leiknum á laugardag.

Íslendingar voru fjölmennir í stúkunni og innan vallar var það síðan íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson sem réði úrslitum með sigurmarki á 74. mínútu.

Flestir Íslendingarnir í stúkunni voru á bandi Liverpool og margir voru sigurvissir fyrir leik. Þar á meðal var Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net, eins og sjá má hér að neðan. Hafliði gat ekki fagnað sigri Liverpool en hann fékk hins vegar tækifæri til að fagna marki frá Gylfa.


Athugasemdir
banner
banner
banner