Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mán 23. febrúar 2015 20:17
Brynjar Ingi Erluson
Hlynur Atli Magnússon til Florø (Staðfest)
Hlynur Atli Magnússon í leik með Þór
Hlynur Atli Magnússon í leik með Þór
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norska C-deildarliðið Florø hefur styrkt sig fyrir komandi átök á tímabilinu en Hlynur Atli Magnússon skrifaði undir samning við félagið í dag. Þetta staðfesti hann við Fótbolta.net nú rétt í þessu.

Hlynur Atli, sem er 24 ára gamall varnar- og miðjumaður, hefur síðustu tvö tímabil leikið með Þór á Akureyri en var frjáls ferða sinna eftir tímabilið og ákvað því að skoða sína möguleika.

Hann æfði með BK Forward í Svíþjóð og svo FH hér heima áður en hann hélt út til Noregs þar sem hann æfði með Florø auk þess sem hann spilaði tvo æfingaleiki með liðinu.

Honum var boðinn samningur í kjölfarið en hann flaug út til Noregs fyrir helgi og skrifaði svo undir samninginn í dag. Samningurinn gildir út tímabilið.

Florø hafnaði í sjötta sæti í riðli 3 í C-deildinni á síðustu leiktíð en félagið stefnir á betri árangur á komandi tímabili.

Fyrsti leikur Florø í norsku C-deildinni er gegn Nardo en mótið hefst 18. apríl næstkomandi.

Hlynur á að baki þrjá landsleiki fyrir yngri landslið Íslands, tvo fyrir U19 ára landsliðið og þá einn fyrir U21 árs landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner