Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 23. febrúar 2018 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron segir lífið skárra núna - Var erfitt fyrir kærustuna
Aron fagnar marki með Werder Bremen.
Aron fagnar marki með Werder Bremen.
Mynd: Getty Images
Aron vonast til að snúa aftur í bandaríska landsliðið sem fyrst. Hér er hann í leik á HM 2014.
Aron vonast til að snúa aftur í bandaríska landsliðið sem fyrst. Hér er hann í leik á HM 2014.
Mynd: Getty Images
Aron Jóhannsson er byrjaður að spila aftur með Werder Bremen eftir að hafa upplifað erfiða tíma hjá félaginu.

Aron var í "frystikistunni" hjá Alexander Nouri, fyrrum þjálfara Werder, en nýr þjálfari liðsins, Florian Kohfeldt hefur verið opnari fyrir því að nota hann og hefur trú á honum.

Aron er í viðtali hjá 433.is þar sem hann talar um síðustu ár og hversu erfið þau hafa verið.

„Lífið er miklu skárra núna en það hefur verið síðustu tvö ár, þetta hefur verið erfitt á köflum en ég hef reynt að vera jákvæður og vonandi heldur þetta svona áfram," sagði Aron.

„Það er gaman að vera að byrjaður að spila á nýjan leik, það getur reynst erfitt að sitja í sófanum allar helgar þegar liðsfélagarnir eru að keppa. Ég hélt að það væri erfiðast af þessu öllu, að vera meiddur, en komst að því þegar ég var heill heilsu að það er miklu verri tilfinning að vera frískur og æfa alla vikuna en fá svo aldrei að spila."

„Ég fékk loksins tækifæri um daginn og það hefur gengið með ágætum að nýta það, vonandi heldur það áfram."

„Ég er keppnismaður og að fá ekki að spila neitt í svona langan tíma getur verið mjög erfitt, ég get ímyndað mér að það hafi líka verið afar erfitt fyrir kærustuna mína. Ég er ekki sá léttasti í skapinu þegar ég fæ ekki að spila."

Það var frægt á sínum tíma þegar Aron valdi bandaríska landsliðið fram yfir það íslenska. Hann vonast til að vinna sér aftur sæti í bandaríska landsliðinu sem fyrst.

„Ef ég held áfram að spila vel og sanna mig aftur hér hjá Bremen þá vonast ég eftir því að vera kallaður inn í landsliðið aftur," sagði Aron. „Vonandi styttist í næsta landsleik."
Athugasemdir
banner
banner
banner