banner
   fös 23. febrúar 2018 12:54
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lögreglumaðurinn skilur eftir sig eiginkonu og tvö börn
Mínútu þögn fyrir alla leiki á Spáni um helgina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þær sorglegu fréttir bárust í gær að spænskur lögreglumaður hefði látið lífið fyrir leik Athletic Bilbao og Spartak Moskvu í gær.

Leikurinn var í Evrópudeildinni og hafði Spartak betur í honum en komst ekki áfram eftir 3-1 sigur Bilbao í fyrri leiknum í Rússlandi.

Stuðningsmenn Spartak sem komu til Bilbao, alla leið frá Moskvu voru með læti fyrir og eftir leikinn.

Þeir lentu í átökum við lögreglumenn fyrir leikinn og lést einn lögreglumannanna úr hjartastoppi eftir að rússneskur stuðnigsmaður kastaði blysi í átt að honum.

Lögreglumaðurinn sem lést í átökunum hefur nú verið nafngreindur, hét hann Inocencio Arias Garcia. Hann var 51 árs að aldri og skilur eftir sig eiginkonu og tvö börn að því er segir hjá Super Deporte.

Einnar mínútu þögn verður haldin fyrir alla fótboltaleiki sem fram fara á Spáni um helgina til minningar um Garcia.

Lögreglumenn ætluðu að fylgja stuðningsmönnum Spartak inn á leikvanginn í gær en hópur stuðningsmanna liðsins tók upp á því að skjóta flugeldum og kasta blysum og öðrum hlutum í átt að stuðningsmönnum Bilbao og lögreglumönnum. Átökin voru fljót að vinda upp á sig með skelfilegum afleiðingum.

Fimm einstaklingar voru handteknir.

UEFA hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og ætlar að rannsaka það frekar. „Við erum í sambandi við yfirvöld í Bilbao til að fá frekari upplýsingar."

Rússland mun halda HM í sumar en þessi átök í gær vekja upp frekari áhyggjur af stöðu mála þar í landi. Rússneskir stuðningsmenn hafa oftar en einu sinni komið sér í vandræði með slagsmálum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner