fös 23. febrúar 2018 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pardew um Evans: Guð kennir okkur að fyrirgefa
Jonny Evans fær aftur fyrirliðabandið.
Jonny Evans fær aftur fyrirliðabandið.
Mynd: Getty Images
Jonny Evans, varnarmaður West Brom, er kominn aftur með fyrirliðabandið hjá félaginu og mun bera það á morgun þegar West Brom mætir Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn þrítugi Evans var einn af fjórum leikmönnum sem stálu leigubíl í æfingaferð í Barcelona í síðustu viku. Evans, Gareth Barry, Boaz Myhill og Jake Livermore fóru með leigubíl á McDonald's klukkan 5:30 um morguninn og stálu síðan bílnum.

Þeir keyrðu heim á hótelið sem WBA dvaldi á þar sem lögregla gómaði þá tveimur tímum síðar.

Evans spilaði í 2-1 tapi gegn Southampton í enska bikarnum um síðustu helgi en Alan Pardew, stjóri WBA, ákvað þá að taka fyrirliðbandið af honum eftir atvikið í Barcelona.

Evans fær þó aftur fyrirliðabandið um helgina.

„Þetta er eins og allir hlutir í lífinu, ef þú gerir mistök áttu þá að gjalda fyrir það allt þitt líf?" spyr Pardew.

„Ég held ekki. Guð kennir okkur að fyrirgefa. Í þessu tilviki myndi ég ekki segja að honum sé fyrirgefið en hann hefur þurft að gjalda fyrir þetta og hann er enn að gjalda fyrir þetta hjá ykkur (fjölmiðlum)," segir Pardew enn fremur um málið.

Evans og Barry spiluðu í 2-1 tapi gegn Southampton í enska bikarnum um síðustu helgi þrátt fyrir atvikið.

„Það mikilvægasta frá honum var frammistaða hans um síðustu helgi. Það var mjög erfiður leikur fyrir hann og Barry. Hann sýndi mikinn karakter að komast í gegnum það. Um helgina þarf hann að sanna að hann sé rétti maðurinn til að leiða liðið."

Pardew segir jafnframt að leikmennirnir sjái eftir atvikinu og hafi beðist afsökunar oft og mörgum sinnum.

WBA er í mjög vondum málum á botni ensku úrvalsdeildarinnar og þarf nauðsynlega á stigum að halda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner