fös 23. febrúar 2018 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stærsti VAR leikurinn hingað til
VAR (myndbandsdómgæsla) hefur verið gagnrýnd.
VAR (myndbandsdómgæsla) hefur verið gagnrýnd.
Mynd: Getty Images
Arsenal og Manchester City mætast í úrslitaleik deildabikarsins.
Arsenal og Manchester City mætast í úrslitaleik deildabikarsins.
Mynd: Getty Images
Myndbandsdómgæsla (VAR - Video assistant referee) verður notuð þegar Arsenal og Manchester City eigast við í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudag.

Kerfið var notað í báðum undanúrslitaeinvígum, er Arsenal sló Chelsea út og þegar Man City sló Hörð Björgvin Magnússon og félaga hans í Bristol City úr leik.

Að sögn Shaun Harvey, sem sér um dómaramálin fyrir keppnina er þetta stærsti VAR leikurinn á Englandi hingað til.

VAR kerfið hefur verið harðlega gagnrýnt en það hefur verið mikið notað á Englandi að undanförnu. Það var til að mynda mikið gagnrýnt um síðustu helgi þegar Manchester United heimsótti Huddersfield í enska FA-bikarnum.

Þar virtist Juan Mata skora löglegt mark en hann var dæmdur rangstæður eftir að dómarinn hafði ráðfært sig við myndbandsdómara.

VAR á aðeins að nota í augljósum mistökum en rangstaðan á Mata var gríðarlega tæp og þar á sóknarmaður að njóta vafans.

Komið hefur í ljós að tæknileg mistök áttu sér stað og fékk Manchester United afsökunarbeiðni.

Það hefur líka skapast ruglingur þegar VAR hefur verið notað og hefur það tekið mikinn tíma. Til þess að skapa sem minnstan rugling á sunnudaginn munu áhorfendur fá skilaboð um það þegar dómarinn ætlar að notast við hjálp frá myndbandsdómaranum.

„Ef það er gefið upp hvers vegna það er töf á leiknum þá vonum við að það bæti samskiptin við stuðningsmenn, bæði við þá sem eru á vellinum og þá sem sitja heima," sagði Harvey við Times.
Athugasemdir
banner
banner
banner