fös 23. mars 2018 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Stuðningsmenn Lazio tilbúnir í stríð við dómarastéttina
Kærðu knattspyrnusambandið
Felipe Anderson og Luis Nani fagna marki ásamt Marco Parolo.
Felipe Anderson og Luis Nani fagna marki ásamt Marco Parolo.
Mynd: Getty Images
Lazio hefur verið að spila frábæran fótbolta á tímabilinu og hefur fátt annað en óheppni haldið liðinu frá því að vera þegar komið með öruggt meistaradeildarsæti.

Lazio er í fimmta sæti deildarinnar sem stendur, í harðri meistaradeildarbaráttu við Roma, Inter og Milan. Lazio er stigi á eftir Inter, sem á leik til góða.

Stuðningsmenn kenna slakri dómgæslu um að liðið sé ekki með fleiri stig á töflunni og segjast þeir vera tilbúnir til að fara í stríð við dómarastéttina.

„Nóg er nóg! Dómararnir rændu stigum af okkur gegn Fiorentina, Torino, Milan, Juventus og Cagliari með lélegum ákvörðunum. Til að telja ekki upp leikina sem við unnum þrátt fyrir ákvarðanir sem fóru gegn okkur," segir talsmaður eins harðasta stuðningsmannahóps Lazio.

Simone Inzaghi, þjálfari Lazio, er ekki mikið fyrir að rífast í dómurum en hefur þrátt fyrir það lent upp á kanti við þá nokkrum sinnum á tímabilinu. Igli Tare, stjórnarmaður og fyrrverandi leikmaður Lazio, hefur farið mikinn í fjölmiðlum við að gagnrýna dómgæsluna.

Stuðningsmenn voru brjálaðir á heimaleik Lazio um síðustu helgi og mættu með borða og gjallarhorn til að koma skilaboðum sínum á framfæri.

„Við erum þreyttir á þessum fáránlegu ákvörðunum. Dómarastéttin er augljóslega að starfa í slæmri trú gegn félaginu. Það er augljóslega verið að taka félagið fyrir og okkur finnst það ótrúlega ófagmannlegt. Við heimtum virðingu."

Stuðningsmannahópur Lazio kærði ítalska knattspyrnusambandið fyrr í vikunni vegna slæmra dómaraákvarðana. Þeir segja ákvarðanirnar hafa skaðað orðspor félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner