Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 23. apríl 2014 09:15
Elvar Geir Magnússon
Ási Arnars: Menn hafa metnað til að gera meira
Ásmundur Arnarsson ræðir við Elís Rafn Björnsson.
Ásmundur Arnarsson ræðir við Elís Rafn Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylki er spáð fallbaráttu í Pepsi-deildinni í sumar en liðið mun hafna í tíunda sæti ef spá Fótbolta.net rætist. Við spurðum Ásmund Arnarsson, þjálfara liðsins, hvort það væri sæti sem hann myndi þiggja ef honum yrði boðið það núna?

„Nei ég held að menn hafi metnað til að gera eitthvað meira en það," segir Ásmundur en spáin kemur honum þó ekki á óvart.

„Í sjálfu sér ekki. Það er mjög erfitt að raða niður þessum liðum í neðri hlutanum og vega og meta styrkleika þeirra. Þetta kemur ekkert á óvart frekar en annað. Við höfum verið um miðbik deildarinnar undanfarin ár en viljum gera eitthvað aðeins meira en það."

Andrés og Agnar Bragi missa líklega af byrjun mótsins
Það hafa margir leikmenn Fylkis verið að glíma við meiðsli. Hvernig er ástandið á hópnum?

„Við tókum kannski að okkur menn sem þarf að taka á lappir. Það er bara í þróun með Andrés Má Jóhannesson og Agnar Braga Magnússon. Ég á ekki von á að þeir verði tilbúnir í byrjun móts en það skiptir okkur miklu máli að koma þeim sem fyrst á lappir. Svo erum við með menn í námi í Bandaríkjunum svo hópurinn þéttist vonandi þegar líður á."

Það verður erfitt að fylla skarðið sem Viðar Örn Kjartansson skildi eftir sig og hefur leit Árbæjarliðsins að sóknarmanni enn ekki skilað árangri.

„Við erum enn að leita í kringum okkur. Ég er hvorki bjartsýnn né svartsýnn varðandi það. Ef við fáum ekki mann þá vinnum við bara út frá því og förum algjörlega óhræddir inn í þetta með þá sem eru til staðar," segir Ásmundur sem telur ríkjandi meistara sigurstranglegasta fyrir mótið.

„Af því sem ég hef séð sýnist mér KR vera með öflugasta hópinn. Ég á von á því að þeir standi uppi sem sigurvegarar en auðvitað eru fleiri lið með öfluga hópa, lið eins og FH, Stjarnan og Breiðablik sem geta veitt þeim keppni. Svo er óráðið með restina og hægt að stokka því hvernig sem er."
Athugasemdir
banner
banner
banner