Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mið 23. apríl 2014 20:36
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Benzema tryggði Real Madrid sigur á Bayern
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld
Mynd: Getty Images
Real Madrid 1 - 0 Bayern München
1-0 Karim Benzema ('19 )

Það var töluvert meira fjör er Real Madrid og Bayern München mættust í fyrri undanúrslitaleik liðanna á Santiago Bernabeu í kvöld heldur en í gær er Atletico Madrid og Chelsea gerðu markalaust jafntefli á Vicente Calderon.

Það var ljóst strax í upphafi að þetta yrði öflugur leikur en þýska liðið byrjaði töluvert betur en það var þó fljótt að breytast.

Eftir nokkrar fínar sóknir Bayern þá óðu Madrídingar upp í skyndisókn sem varð til þess að Fabio Coentrao fékk boltann vinstra megin við teiginn og lagði hann inn á Karim Benzema sem skoraði örugglega.

Stuttu síðar hefði Cristiano Ronaldo getað bætt við öðru marki er hann stóð einn og óvaldaður gegn Manuel Neuer en skot hans fór langt yfir markið. Angel Di Maria fékk sömuleiðis stórhættulegt færi hægra megin í teignum en hann gerði slíkt hið sama og þrumaði yfir markið.

Bæði lið fengu ágætis færi í síðari hálfleik en Mario Götze fékk gullið tækifæri til að jafna metin undir lok leiks en Iker Casillas varði meistaralega frá honum af stuttu færi.

Thomas Müller vildi fá vítaspyrnu í viðbótartíma en Howard Webb, dómari leiksins, dæmdi ekkert. Xabi Alonso átti þá að hafa brotið á honum en á endursýningu sést klárlega að Alonso var ekki brotlegur.

Lokatölur á Bernabeu því 1-0 í kvöld en það má búast við stórkostlegum leik á Allianz leikvanginum í næstu viku.
Athugasemdir
banner
banner
banner