banner
   mið 23. maí 2018 11:30
Magnús Már Einarsson
Íslenskir stuðningsmenn Arsenal tjá sig um ráðninguna á Emery
Unai Emery er tekinn við Arsenal.
Unai Emery er tekinn við Arsenal.
Mynd: Getty Images
Emery hefur stýrt PSG undanfarin tvö tímabil.
Emery hefur stýrt PSG undanfarin tvö tímabil.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Unai Emery var í morgun ráðinn knattspyrnustjóri Arsenal en hann tekur við eftir 22 ára valdatíð Arsene Wenger.

Fótbolti.net fékk valinkunna stuðningsmenn Arsenal til að tjá sig um ráðninguna.



Einar Örn Jónsson, RÚV
Mér líst vel á þetta. Hann gerði mjög vel með takmarkaðar bjargir hjá Sevilla og Valencia og miðað við það sem ég hef lesið er hann mikill kennari. Vill bæta þá menn sem hann hefur sem leikmenn og er taktískur fanatíker. Vídeóbrjálaður t.d. Átti aðeins í basli hjá PSG en mig grunar að það sé no win job. Verður núna í þriggja manna teymi með fótboltastjóranum (Sanllehi) og innkaupastjóranum (Mislintat) og hans djobb er að þjálfa og taktikera. Þar er hann víst grjótharður og heldur uppi miklum aga. Verður spennandi.

Jón Kaldal, sparkspekingur
Mig dreymdi um Allegri en það rætast bara sumir draumar. Að því sögðu líst mér feikilega vel á Emery og hefði alla daga tekið hann fram yfir Arteta. Ég held að Emery sé einmitt týpan sem Arsenal þurfi núna. Hann er manískur í taktík og gerir mjög miklar kröfur til leikmanna, sem hefur vantað upp á í seinni tíð hjá Arsenal. Mér hefur fundist vanta upp á að allir leikmenn skili 100 prósent vinnu þegar liðið er ekki með boltann. Vonandi er það liðin tíð.
Emery hefur líka sannað sig sem sigurvegari. Hann vann meðal annars Evrópudeildina 2016 þegar Sevilla lagði Klopp og félaga hjá Liverpool í úrslitaleiknum, og PSG vann alla titla sem voru í boði í Frakklandi í vetur. Ég sé að einhverjir telja honum til tjóns stórtapið á móti Barcelona í seinni leiknum í Meistaradeildinni í fyrra. Það tap var þó eitt mesta rán knattspyrnusögunnar og skrifast alfarið á þá ákvörðun dómaranna að ganga til liðs við Suarez, Busquets og hina raðsvindlarana í Barca. Sömu gagnrýnisraddir nefna að Emery hafi ekki unnið franska meistaratitilinn í fyrra. Mónakó átti hins vegar stórbrotið tímabil og sló meðal annars út Man City í meistaradeildinni. Við skulum ekki gleyma að meistaratitlar koma aldrei á silfurfati. Ranieri vann ensku deildina þar sem Mourinho, Pellegrini, Klopp og Wenger voru með lið, allt stjórar með marga titla á bakinu. Svo er athyglisvert að bera Emery við Pochettino hjá Tottenham. Poc þykir frábær, sem hann er, en hann hefur ekki unndið neitt. Emery er jafnaldri hans og er þegar að drukkna í bikurum.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 ára landsliðsins
Eftir að hafa lesið um manninn og hvernig Arsenal er að breytast þá sýnist mér þetta vera góð lending og hann passar í þá hugmyndafræði sem klúbburinn byggir á. Hann er coach frekar en manager og á að vinna úr því sem þremenningarnir á skrifstofunni koma með til hans. Há ákefð og skipulag er vonandi það sem hann nær að kalla fram í Arsenal liðinu. Vonum það besta.

Daníel Geir Moritz, Innkastið
Mér líst vel á þetta. Verkefnið verður ærið, margir slakir leikmenn fá margar mínútur og skipulagið afleitt í leik liðsins. Emery hefur marga eiginleika sem henta okkur og mun vonandi vera óhræddur við að taka aðeins til. Þetta er ekki draumaráðningin en ég er kominn á vagninn!

Einar Guðnason, Berserkir
Mér líst bara ágætlega á þetta. Ég þekki reyndar ekkert sérstaklega mikið til hans en hann er hefur ágætis reynslu, hefur verið að vinna slatta af titlum síðustu ár, virðist vera taktískur og spilar flottan og skemmtilegan fótbolta. Hjá Sevilla var hann að ná því besta útúr sínum leikmönnum og það verður spennandi að sjá hvernig leikmenn eins og Ramsey, Mustafi, Iwobi og fleiri sem hafa ekki verið að ná sínu besta fram undanfarið plumma sig undir honum. Það verður spennandi að sjá hvaða leikmenn og í hvaða stöður hann leggur mesta áherslu á að versla í.

Gunnar Birgisson, RÚV
Já ég held að það verði ekki annað sagt en að maður sé mjög sáttur. Emery þekkir það ágætlega að lyfta titlum og elskar að vinna hina virtu Evrópukeppni. Hann er með talsvert betra record en svokallaðir „bestu þjálfarar Englands" Klopp og Pocchetino og gerði frábæra hluti hjá Sevilla og Valencia. Mest sáttur bara að sleppa við Arteta, það hefði verið slys. Verður erfitt að feta í fótspor Wenger, eiginlega ómögulegt. Ef það er rétt sem maður les hvernig hann vill byggja liðið upp þá er lítil ástæða til annars en að vera vongóður fyrir næstu tímabilum. GBFerðir verða að öllum líkindum með hópferð á Emirates á næsta ári, stay tuned.

Kjartan Björnsson, rakari
Ráðning hans kemur verulega á óvart en þó ekki ef hugsað er til baka. Þegar Wenger var ráðinn á sínum tíma þá kom hún mjög á óvart og var ekki í takt við væntingar og umræðu. Ég hef sagt við fjölmarga Arsenalmenn upp á síðkastið að skeð gæti að einhver óvæntur aðili yrði ráðinn sem hefur raungerst. Ég held þó að Arsenalmenn verði sáttir við þetta nýja skref sem félagið stígur inn í gríðarlega spennandi framtíð hjá félaginu. Nostalgían hjá mér sagði Vieira og Henry saman en ég er sáttur með Emery. Arsenal Wenger og Emery Stadium 🙂 Þetta smellur saman. Ég er sáttur við nýja manninn og er spenntari fyrir en Arteta.

Siggi dúlla, liðsstjóri landsliðsins
Ég er mjög spenntur fyrir þessari ráðningu, Gæji sem er með flottan feril, þekkir það að vera hjá stórum liðum, veit hvað þarf til að ná árangri og mun klárlega koma inn með mikinn aga. Ég vona að þetta sé nákvæmlega það sem Arsenal þarf á þessum tímapunkti.
Athugasemdir
banner
banner
banner