Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   mið 23. júlí 2014 19:21
Brynjar Ingi Erluson
Gylfi Þór: Frábært að vera kominn aftur til Swansea
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Mynd: Getty Images
Gylfi í leik með Swansea
Gylfi í leik með Swansea
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea City í ensku úrvalsdeildinni, segir ákvörðunina um að ganga til liðs við félagið hafa verið auðvelda en hann ræddi um skiptin á heimasíðu Swansea í kvöld.

Gylfi, sem er 24 ára gamall, samdi við Swansea í kvöld en hann gerði fjögurra ára samning við velska félagið.

Swansea borgaði 10 milljónir punda fyrir Gylfa en hann kom frá Tottenham Hotspur þar sem hann hafði leikið síðustu tvær leiktíðir.

Gylfi kveðst ánægður með að vera kominn aftur og að ákvörðunin hafi reynst honum afar auðveld.

,,Þetta er frábært fyrir mig. Ég naut þess að vera hérna þegar ég kom hingað á láni fyrir tveimur árum, svo það er frábært að vera kominn aftur hingað," sagði Gylfi við heimasíðu Swansea.

,,Ég var hérna í fjóra mánuði og á margar góðar minningar. Vonandi mun mér vegna enn betur núna."

,,Tími minn hjá Tottenham var mjög ánægjulegur. Það er erfitt að yfirgefa klúbb sem er ánægjulegt að spila fyrir síðustu tvö árin en um leið og Swansea kom inn í dæmið þá reyndist þetta vera afar auðveld ákvörðun,"
sagði hann ennfremur.

Gylfi hittir hjá Swansea nokkra af sínum gömlu liðsfélögum en hann spilaði með mönnum á borð við Angel Rangel, Ashley Williams, Neil Taylor, Leon Britton, Wayne Routledge og Nathan Dyer.

,,Hópurinn hefur aðeinst breyst á síðustu tveimur árum en kjarninn er þarna. Ég þekki mikið af leikmönnum og starfsmönnum félagsins og svo auðvitað stjórann þar sem ég spilaði með honum."

,,Það er ekki eins og ég sé að ganga til liðs við nýtt félag. Ég er bara að koma til baka eftir tveggja ára fjarveru en félagið hefur þó vaxið og dafnað bæði innan sem utan vallar."

Gylfi skoraði 7 mörk í 19 leikjum fyrir Swansea er hann var á láni hjá félaginu en hann ætlar sér að gera betur á næsta tímabili.

,,Ég hef sett mér þau markmið að í það minnsta jafna þau mörk sem ég skoraði síðasta þegar ég var hérna á láni en ég mun fyrst og fremst hugsa um liðið."

,,Aðalatriðið er að halda sér í deildinni og reyna að þokast upp töfluna og komast aftur í Evrópudeildina. Þetta eru markmiðin sem ég vil ná en núna verð ég að einbeita mér að undirbúningstímabilinu."

,,Ég missti af vináttuleik Tottenham gegn Seattle Sounders því ég þurfti að fljúga hingað svo ég hef ekki spilað leik í sumar. Ég get ekki beðið eftir að komast á æfingu með Swansea og ná nokkrum leikjum áður en tímabilið byrjar,"
sagði hann að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner