mið 23. júlí 2014 19:38
Magnús Már Einarsson
Stjóri Motherwell: Það var of heitt fyrir okkur í Skotlandi
Stuart McCall (til hægri) á fréttamannafundinum í kvöld.
Stuart McCall (til hægri) á fréttamannafundinum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
McCall á hliðarlínunni.
McCall á hliðarlínunni.
Mynd: Getty Images
Stjörnumenn slógu Bangor út í fyrstu umferðinni.
Stjörnumenn slógu Bangor út í fyrstu umferðinni.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
,,Ég býst við mjög svipuðum leik og í fyrri leiknum," segir Stuart McCall stjóri Motherwell um leik liðsins gegn Stjörnunni í Evrópudeildinni annað kvöld. Staðan eftir fyrri leikinn er 2-2 og McCall býst við hörku leik í Garðbæ á morgun.

,,Stjarnan hefur bara tapað einum af sextán leikjum á tímabilinu svo þeir eru fullir sjálfstrausts. Þeir eru góðir í skyndisóknum og skora mikið af mörkum. Við vonumst til að skapa færi líka og þetta gæti verið annar opinn leikur."

,,Ég held að hvorugt liðið sé sigurstranglegra. Bæði lið þekkja betur inn á hvort annað og ég held að þau séu bæði vongóð að komast áfram. Stjarnan er með góða sóknarmenn og okkar bestu framherjar eru með svo þetta ætti að vera opinn leikur með mörgum mörkum."


Hrifinn af Veigari
McCall hafði njósnað um lið Stjörnunnar fyrir fyrri leikinn og hann segir Garðbæinga ekki hafa komið sér í opna skjöldu þar.

,,Ég sá þá spila gegn Bangor og í 2-2 í toppslagnum í deildinni (gegn FH). Við þekktum (Ólaf Karl) Finsen og (Arnar Má) Björgvinsson á köntunum. Þeir eru góðir leikmenn. (Veigar Páll) Gunnarsson ætti að vera betri á gervigrasinu. Hann er góður og reynslumikill leikmaður."

,,Þeir hafa klárlega gæði og þeir komu ekki á óvart í fyrri leiknum. Við gáfum tvö heimskuleg víti sem við gerum vonandi ekki aftur. Við hefðum átt að stjórna leiknum betur þegar við vorum 2-0 yfir en við gerðum það ekki og þetta voru líklega sanngjörn úrslit."


Eftir fyrri leikinn sagði McCall að leikurinn hefði getað endað 6-6. ,,Ef það fer 6-6 núna þá verður það gott fyrir okkur," sagði McCall hlæjandi enda myndi það duga Motherwell til að komast áfram á útivallarmörkum.

,,Við erum komnir í betra stand núna. Við vorum þreyttir síðustu 15-20 mínúturnar í fyrri leiknum en það verður vonandi ekki uppi á teningnum núna."

Munu ekki nota völlinn sem afsökun
Leikurinn annað kvöld fer fram á gervigrasi en leikmenn Motherwell eru vanari því að spila á grasi í Skotlandi.

,,Það er ekki vandamál. Við höfum spilað á gervigrasi í Skotlandi. Við erum með tekníska leikmenn og þetta er gott fyrir lið sem vilja spila fótbolta. Við viljum spila fótbolta. Þetta væri öðruvísi ef við værum lið sem notar langar sendingar. Ef okkur gengur ekki vel þá munum við ekki nota völlinn sem afsökun."

Of heitt til að vera í Skotlandi
Hinn fimmtugi McCall lék um árabil með liðum eins og Everton, Bradford og Rangers sem og skoska landsliðinu. Hann hefur hins vegar aldrei áður komið til Íslands.

,,Það er fínt að vera hérna. Það er svolítill vindur hérna en mér er sama um kuldann. Í dag er heitasti dagur ársins í Motherwell og þess vegna komum við til Íslands. Það var of heitt fyrir okkur þar," sagði McCall hress að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner