banner
   mán 23. október 2017 16:41
Magnús Már Einarsson
Andri Rúnar með tilboð frá Helsingborg
Andri Rúnar var geggjaður í sumar.
Andri Rúnar var geggjaður í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Helsingborg í sænsku B-deildinni hefur boðið Andra Rúnari Bjarnasyni samning en þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í dag.

Andri Rúnar sló í gegn með Grindavík í Pepsi-deildinni í sumar en hann jafnaði markametið í efstu deild með því að skora 19 mörk. Hann var eftir tímabilið valinn besti leikmaður deildarinnar hjá Fótbolta.net.

Félög á Norðurlöndunum hafa sýnt Andra áhuga og Helsinborg hefur nú boðið honum samning. Andri er samningslaus og hann getur því farið frítt í annað félag.

„Það er komið tilboð frá Helsingborg. Þeir eru líklegastir í augnablikinu," sagði Andri Rúnar við Fótbolta.net í dag en hann var þá nýbúinn að klára æfingu í ræktinni.

Helsingborg er í 6. sæti í sænsku B-deildinni og á ekki möguleika á að fara upp um deild. Helsingborg hefur fimm sinnum orðið sænskur meistari en liðið féll úr efstu deild í fyrra.

Árið 2012 raðaði Alfreð Finnbogason inn mörkum með Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni en hann skoraði tólf mörk í sautján leikjum áður en Heerenveen keypti hann.
Athugasemdir
banner
banner