Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 23. nóvember 2017 15:45
Elvar Geir Magnússon
Bríet stefnir að því að dæma í Pepsi-deild karla
Bríet Bragadóttir dómari.
Bríet Bragadóttir dómari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bríet dæmdi bikarúrslitaleik kvenna í ár.
Bríet dæmdi bikarúrslitaleik kvenna í ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bríet Bragadóttir dómari stefnir að því að dæma í Pepsi-deild karla á næstu árum. Þetta kemur fram í viðtali við hana á Vísi.

„Mér hefur verið sagt að það sé raunhæfur möguleiki fyrir mig ef ég held rétt á spöðunum, held mér áfram í góðu formi og held áfram að standa mig. Ég sé það alveg fyrir mér á næstu árum," segir Bríet.

Á þriðjudaginn var tilkynnt að Bríet væri orðin FIFA-aðaldómari, fyrst íslenskra kvenna.

Á árinu varð hún einnig fyrsta konan til að dæma bikarúrslitaleik á Íslandi þegar hún dæmdi leik ÍBV og Stjörnunnar í byrjun september.

„Tilfinningin er frábær. Að verða FIFA dómari hefur verið markmið hjá mér síðustu fjögur árin og það er frábært að það sé að rætast núna," segir Bríet í viðtali á heimasíðu KSÍ.

„Ég æfði fótbolta allt frá því að ég var lítil og þangað til ég var 18 ára. Fyrst var ég hjá Sindra á Hornafirði meðan ég bjó þar. Ég flutti síðan í bæinn til að fara í framhaldsskóla og æfði ég þá með KR og Þrótti Reykjavík."

Það var á meðan hún var í Vesturbænum sem hún tók sín fyrstu skref í dómgæslunni.

„Þegar ég var í KR tók ég unglingadómarapróf því allir áttu að taka það á þeim tíma. Fljótlega eftir það meiddist ég það illa að ég gat ekki æft, en á sama tíma var KSÍ einmitt að auglýsa héraðsdómaranámskeið fyrir konur svo ég skellti mér á það. Framkvæmdastjóri Sindra hvatti mig síðan til að dæma á sumrin á meðan ég var í framhaldsskóla og sömuleiðis Magnús, dómarastjóri KSÍ."

Þróun Bríetar sem dómari hefur verið hröð og fara verkefni hennar stigvaxandi. Það er þó ljóst í hennar huga hvert næsta markmiðið sé.

„Það er að fá A-landsleik. Draumurinn væri að þá verði nægilega margar konur á Íslandi að dæma svo hægt verði að senda tríó frá okkur."

Rúna Kristín Stefánsdóttir er á lista yfir FIFA-aðstoðardómara. Þær stöllur eru nú orðnar tvær á FIFA listanum og því er ljóst að aðeins vantar einn kvenkyns aðstoðardómara svo þessi draumur Bríeta rætist. Aðeins tíminn leiðir í ljós hvenær það gerist.
Athugasemdir
banner
banner
banner