Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 24. mars 2014 14:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvers vegna samstarf?
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Arnar Guðmundsson.
Arnar Guðmundsson.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er hugsanlegt að samstarf félaga í knattspyrnu dragi áhuga ungra barna á íþróttinni? Þessari spurningu verður ekki svarað með já-i eða nei-i. Það má hins vegar velta henni svolítið fyrir sér og reyna að átta sig á því hversu gott eða vont það er fyrir knattspyrnuhreyfinguna að félög sameini krafta sína í yngri flokkum. Það sem er jákvætt við að félög starfi saman í einstökum flokkum er að skapa verkefni fyrir börn á fámennum stöðum. Samstarf á fyrst og fremst að snúast um þörfina fyrir samstarfi, ef fjöldinn er til staðar þá þarf ekki samstarf. Þetta er lykilatriðið og segir sig sjálft.

Það sem hefur neikvæð áhrif eru erfiðar samgöngur, deilur um samæfingastaði, samæfingafjölda, leikstaði og síðast en ekki síst skipting kostnaðar á milli félaga. Einnig er það neikvæð staðreynd að iðkendum á það til að fækka frekar en hitt eftir því sem árin verða fleiri í samstarfi. Þetta er hægt að fá staðfest bæði innan KSÍ og ÍSÍ og sú þróun er miður.

Þróttur Neskaupstað er dæmi um félag sem hefur verið í samstarfi með öðrum félögum í Fjarðabyggð varðandi rekstur keppnisliða í knattspyrnu í yngriflokkum frá árinu 2006. Til að byrja með var samstarfið bara í elstu flokkunum, 3. og 4. flokki. En árið 2009 var stofnað sérstakt félag til að halda utan um rekstur samstarfsins í 3. – 7. flokki.

Iðkendum hefur fækkað
Ef við skoðum þróun á iðkendafjölda hjá Þrótti eftir að samstarfið hófst í 5. – 7. flokki þá fjölgaði iðkendum í þessum flokkum fyrstu 2 – 3 árin. En eftir að nýja brumið var farið af þessu var vart við brottfall úr þessum flokkum þrátt fyrir að börnum í Neskaupstað hafi fjölgað lítið eitt.

Dæmi: Í 7. fl. kk árið 2010 voru 18 strákar, þessir sömu árgangar skipa 6. fl. kk árið 2012 og þá var fjöldinn komin niður í 13 stráka. Í dag er þetta 5. fl. kk sem telur 10 stráka, fækkunin er því um 44% (Tafla 1). Hjá stelpunum er þetta ekki eins. Þar er vandamálið að fá stelpur til að æfa fótbolta og það vandamál er almennt á Íslandi.

Erfið samskipti
Samskipti er eitt af því sem þarf að vera í topplagi í samstarfi. Árið 2011 var farið að bera á erfiðleikum í samskiptum milli aðildarfélaganna eins og ágreining um hvar samæfingar ættu að vera, hversu oft í viku þær ættu að vera, í hvaða flokkum á að byrja samstarfið og svo framvegis. Verkefni stjórnarmanna og annara sem í þessu umhverfi starfa snýst orðið meira og minna um að leysa þessi vandamál í stað þess að sinna hefðbundnum störfum.

Stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar reyndi að bregðast við þessari þróun með því að leggja til breytingar á samstarfsforminu í yngstu flokkunum. Var lagt til að börn í 5. og 6. flokki ættu ekki að sækja samæfingar þar sem engin þjálffræðileg rök væru fyrir því auk þess sem nægur fjöldi iðkenda væri ennþá til staðar til að halda úti keppnisliðum sem er jú lykilatriði fyrir því hvort félög fari í samstarf eða ekki. Þarna taldi stjórnin sig vera vinna í samræmi við stefnuyfirlýsingu KSÍ um þjálfun barna og unglinga en þar stendur að markmiðið í þessum flokkum á að vera að allir fái tækifæri til að vera með óháð getu og allir fái sömu viðurkenningu fyrir þátttöku. Því miður er ekki vilji hinna aðildarfélaganna að gera þetta svona. Menn leggja meiri áherslu á stærð og styrkleika og að árangurinn sé metinn eftir úrslitum leikja og gengi liða á mótum.

Knattspyrna er ekki pólitík
Það er ljóst að samstarfið er ekki jafn gott í dag og það var í upphafi. Reyndar er það orðið það slæmt að bæjarpólitkíusar vilja ráða því hvort og þá hvar barn í 1. eða 4. bekk æfi og spili fótbolta sem býr í Neskaupstað. Rökin eru m.a. þau að það sé mikilvægt fyrir sameiningu sveitarfélagsins að börnin okkar æfi fótbolta saman og það sé gott fyrir ímynd sveitarfélagsins út á við. Þetta er farið að snúast um eitthvað allt annað en fagleg vinnubrögð við knattspyrnulegt uppeldi. Þá má alveg eins spyrja af hverju er það ekki mikilvægt fyrir sveitarfélagið að börnin okkar æfi og spili t.d. blak saman? Það eru börn á Fáskrúðsfirði að æfa blak. Einnig hafa þau rök heyrst að búið sé að byggja fótboltahús á Reyðarfirði og við verðum að nota það. Notkunin á Fjarðabyggðarhöllinni hefur bara ekkert með samstarf að gera. Er eitthvað sem bannar það að börn í Neskaupstað geti fengið tíma í höllinni ef það hentar þeim?

Það væri mikið gæfuspor fyrir austfirska knattspyrnu ef félögin gætu sammælst um að þörfin fyrir samstarfi ætti að ráða en ekki einhver pólitísk sjónarmið, því við viljum stuðla að fjölgun iðkenda og fjölga liðum á Austurlandi og gefa þeim tækifæri á því að taka þátt t.d. í Íslandsmóti án þess að þau þurfi að ferðast yfir þúsund kílómetra í leiki. Undir þetta hefði ég getað stoltur lagt nafn mitt við.

Arnar Guðmundsson framkvæmdarstjóri Knattspyrnudeildar Þróttar N, barna- og unglingaráð.
Athugasemdir
banner
banner