Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 24. apríl 2014 14:15
Elvar Geir Magnússon
Bjarni Guðjóns: Tilhlökkun sama hvar við munum spila
Bjarni Guðjónsson á hliðarlínunni.
Bjarni Guðjónsson á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar mæta með gjörbreytt lið til leiks í Pepsi-deildinni þetta sumarið og er þeim spáð sjöunda sæti. Bjarni Guðjónsson lagði skóna á hilluna eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með KR í fyrra og tók við Fram.

„Þessar spár eru aðeins til að kveikja í þessu er það ekki? Þær eru skemmtilegar að því leytinu að það er kominn fiðringur í mann. Þegar spárnar byrja þá veit maður að mótið er rétt handan við hornið," segir Bjarni.

„Ég er mjög ánægður með undirbúningstímabilið hjá okkur. Það hefur gengið rosalega vel. Eins og nafnið segir þá er þetta tímabil til að undirbúa liðið fyrir sumarið. Þó svo að ég sé að gera þetta í fyrsta skipti höfum við notað leikina í að undirbúa okkur fyrir sumarið."

„Við erum með gjörbreytt lið og það hefur tekist mjög vel að búa til góða og skemmtilega stemningu í hópnum. Við höfum verið að vinna í fullt af málum í vetur og ég tel okkur vera á ágætu róli."

Varðandi toppbaráttuna í sumar telur Bjarni að KR, FH og Breiðablik séu í sérflokki.

„Þetta ræðst rosalega oft í maí á því hvert af þessum liðum byrjar best. Þegar þessi þrjú lið spila sinn besta leik þá eru hin liðin í raun ekki að keppa við þau. Þar fyrir utan geta allir unnið alla og allir tapað fyrir öllum," segir Bjarni sem fékk Jóhannes Karl bróðir sinn til að spila fyrir Fram.

„Jói hefur komið mjög vel inn í þetta. Ég vissi alveg hvað ég var að ná í en það er ekki bara Jói. Ögmundur var fyrir og hefur verið öflugur, Tryggvi hefur verið sterkur og Guðmundur Steinn komið vel inn í þetta. Ég er í raun rosalega ánægður með alla þessa stráka sem hafa komið og erfitt að taka einhverja út."

Varnarmaðurinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson hefur ekkert spilað í Lengjubikarnum.

„Bjarni Hólm er meiddur og óvíst hversu mikinn þátt hann getur tekið í sumar. Benedikt Októ er í liðþófavandamál en annað er minniháttar og ætti ekki að hafa áhrif í fyrsta leik," segir Bjarni um stöðuna á leikmannahópnum.

Allt útlit er fyrir að gervigrasvöllurinn í Laugardal verði heimavöllur Fram í fyrstu leikjum sumarsins þar sem Laugardalsvöllur er ekki tilbúinn.

„Ég held að það sé klárt að við byrjum ekki á Laugardalsvelli og það þarf að finna einhverja lausn á því. Það væri mjög gott ef við gætum fært okkur einhverja 120 metra. Það væri þægilegt og við gætum horft yfir á hinn völlinn. Við erum á gervigrasi nánast allt árið. Grasið er ekki tilbúið og það yrði lítill fótbolti í því að fara á það núna. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur, sama hvar við munum spila," segir Bjarni Guðjónsson.
Athugasemdir
banner
banner