Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 24. apríl 2015 12:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 4. sæti: Valur
Valsmenn urðu Reykjavíkurmeistarar í vetur.
Valsmenn urðu Reykjavíkurmeistarar í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn öflugi Bjarni Ólafur Eiríksson.
Varnarmaðurinn öflugi Bjarni Ólafur Eiríksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Adolphsson kom frá ÍA.
Andri Adolphsson kom frá ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Patrick Pedersen.
Sóknarmaðurinn Patrick Pedersen.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Hinn ungi Daði Bergsson.
Hinn ungi Daði Bergsson.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Síðasta liðið sem við kynnum fyrir helgi er Valur en á mánudag kynnum við liðið sem spáð er þriðja sætinu. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Valsmönnum er spáð fjórða sæti en þeir fengu 70 stig.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. Valur 70 stig
5. Breiðablik 65 stig
6. Fylkir 56 stig
7. Víkingur 48 stig
8. Keflavík 34 stig
9. Fjölnir 28 stig
10. ÍBV 27 stig
11 ÍA 21 stig
12. Leiknir 14 stig

Um liðið: Þjálfaraskipti hafa orðið hjá Valsmönnum sem höfnuðu í fimmta sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra. Ólafur Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfari, er tekinn við og Sigurbjörn Hreiðarsson er honum til aðstoðar. Valur vill rífa sig upp í hóp bestu liða landsins og verkefni nýrra þjálfara er að koma liðinu þangað.



Hvað segir Jörundur? Jörundur Áki Sveinsson er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deildinni 2015. Jörundur lét af störfum sem þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en þar áður var hann aðstoðarþjálfari FH. Í dag þjálfar hann meistaraflokk kvenna hjá Fylki.

Styrkleikar: Helsti styrkleiki Vals er sóknarleikurinn. Eru með einn albesta sóknarmann landsins í Patrick Pedersen. Frábær leikmaður þar á ferð. Eru með flotta stráka í kringum hann sem ná vonandi að blómstra í sumar eftir frekar erfið ár. Ég tel það til styrkleika að fá Óla Jó og Sigurbjörn Hreiðarsson til þess að leiða þennan hóp. Þeir mynda skemmtilegt teymi, Óli með mikla reynslu og Bjössi með gríðarlegt Valshjarta og góða þekkingu á leiknum. Það bíður þeirra verðugt verkefni að koma Val í fremstu röð á nýjan leik.

Veikleikar: Varnarleikur liðsins gæti orðið vandamál. Ég tel að þeir hefðu þurft að fá hafsent, þó ekki væri nema bara til þess að auka breidd í þær stöður. Orri Sigurður er framtíðarmaður, en hann þarf að fá að þroskast og gera sín mistök, þarf sterkan mann með sér. Einn miðjumaður í viðbót er líka eitthvað sem þjálfaranir myndu örugglega taka fegins hendi ef það stæði þeim til boða.

Lykilmenn: Haukur Páll hefur verið þeirra prímusmótur undanfarin ár. Skiptir máli að hann haldist heill og safni færri spjöldum en oft áður. Patrick Pedersen er klárlega lykilmaður og sá sem á að skora mörkin að Hlíðarenda. Gæðaleikmaður.

Gaman að fylgjast með: Það verður pressa á Valsmönnum strax í fyrsta leik. Þá koma nýliðar Leiknis í heimsókn. Þann leik eiga/verða Valsmenn að vinna. Takist þeim að byrja mótið vel þá tel ég að þeir eigi alla möguleika að vera í efri hluta deildarinnar. Gætu jafnvel komið á óvart. Óli hefur aðeins reynt að skrúfa væntingarnar niður, enda ekki að byrja að þjálfa fótbolta. Það verður gaman að sjá hvort hinn ungi Anton Ari, sem er klárlega framtíðarmarkvörður, eða hvort það verður Ingvar Kale sem byrjar í búrinu. Ég tippa á Kale.



Stuðningsmaðurinn segir - Einar Gunnarsson
„Verður maður ekki að vera léttur í lund fyrir komandi sumri. Undirbúningstímabilið gekk vel, að síðasta leik undanskildum, og var spilamennska liðsins mjög góð. Það er engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn."

„Óli og Bjössi hafa komið með ferskan blæ á Hlíðarenda og það virðist sem leikgleðin sé meiri núna en undanfarin ár. Við erum búnir að bæta við okkur góðum mönnum og misst lítið sem ekki neitt. Það verður gaman að sjá hvernig Orri og Andri koma inn í þetta. Þeir hafa mikil gæði en hafa ekki enn spilað fyrir jafn stóran klúbb og Val."

„Sóknarleikurinn er gríðarlega sterkur með Pedersen í fremstu víglínu. Það er helst að maður hafi örlitlar áhyggjur af breiddinni í varnarlínunni. Fjórða sætið er raunhæf spá og þrátt fyrir að Óli hafi sagt annað í viðtali um daginn, hef ég fulla trú á því að við getum barist um Evrópusæti."

Völlurinn: Vodafone-Hlíðarendi er einn glæsilegasti leikvangur landsins. Flott stúka sem tekur 1.201 í sæti.

Komnir:
Andri Adolphsson frá ÍA
Andri Fannar Stefánsson frá Leikni (Var í láni)
Baldvin Sturluson frá Stjörnunni
Einar Karl Ingvarsson frá Grindavík (Var í láni)
Hilmar Þór Hilmarsson frá Stjörnunni
Ingvar Þór Kale frá Víkingi R.
Orri Sigurður Ómarsson frá AGF
Tómas Óli Garðarsson frá Breiðabliki

Farnir:
Arnar Sveinn Geirsson í Víking Ó.
Billy Berntsson
Fjalar Þorgeirsson hættur
Halldór Hermann Jónsson í KA
Kolbeinn Kárason í Leikni
Magnús Már Lúðvíksson í Fram
Matarr Jobe
Tonny Mawejje

Leikmenn Vals sumarið 2015:
1 Ingvar Kale
2 Orri Ómarsson
3 Iain James Williamson
4 Einar Karl Ingvarsson
5 Baldvin Sturluson
6 Daði Bergsson
7 Haukur Páll Sigurðsson
8 Kristinn Ingi Halldórsson
9 Patrick Pedersen
10 Kristinn Freyr Sigurðsson
11 Sigurður Egill Lárusson
12 Anton Ari Einarsson
13 Darri Sigþórsson
14 Gunnar Gunnarsson
15 Þórður Steinar Hreiðarsson
16 Tómas Óli Garðarsson
17 Andri Adolphsson
18 Haukur Ásberg Hilmarsson
19 Marteinn Högni Elíasson
21 Bjarni Ólafur Eiríksson
23 Andri Fannar Stefánsson
29 Ragnar Þór Gunnarsson

Leikir Vals 2015:
3. maí Valur – Leiknir
10. maí Víkingur – Valur
17. maí Valur – FH
20. maí Breiðablik – Valur
25. maí Valur – Fjölnir
31. maí Fylkir – Valur
7. júní Valur – KR
14. júní Keflavík – Valur
21. júní Valur – ÍBV
28. júní Valur – ÍA
10. júlí Stjarnan – Valur
20. júlí Leiknir – Valur
26. júlí Valur – Víkingur R.
5. ágúst FH – Valur
10. ágúst Valur – Breiðablik
17. ágúst Fjölnir – Valur
24. ágúst Valur – Fylkir
30. ágúst KR – Valur
13. sept Valur – Keflavík
20. sept ÍBV – Valur
26. sept ÍA – Valur
3. okt Valur – Stjarnan

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson og Jóhann Ingi Hafþórsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner